Auglýsing

Íslandsmótið í höggleik hefst á fimmtudaginn í næstu viku og fer að þessu sinni fram á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili. Nú þegar hafa sterkir keppendur skráð sig til leiks á mótið en þar á meðal eru sumir af okkar þekktustu atvinnukylfingum.

Má helst nefna heimamanninn Axel Bóasson og Valdísi Þóru Jónsdóttur frá Akranesi.

Axel hrósaði nýlega sigri á sínu fyrsta atvinnumannamóti á Nordic League mótaröðinni og kemur því sjóðheitur til leiks á Hvaleyrina þar sem hann þekkir hverja þúfu. Axel varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2011.

Valdís Þóra Jónsdóttir hefur verið brautryðjandi í kvennagolfi á undanförnum misserum og tekur nú þátt í Evrópumótaröð kvenna. Valdís vann sér nýlega inn þátttökurétt á einu af risamótunum, Opna bandaríska meistaramótinu, en það verður síðasta mót hennar fyrir Íslandsmótið.

Valdís háði frábært og eftirminnilegt einvígi við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur um titilinn á Íslandsmótinu í fyrra en hún hefur tvisvar sinnum hampað Íslandsmeistaratitlinu, árin 2009 og 2012.

Mikið verður um dýrðir á mótsvæðinu á Hvaleyri og eru allir kylfingar hvattir til að mæta á svæðið og fylgjast með okkar bestu kylfingum kljást við Hvaleyrarvöllinn sem mun skarta sínu fegursta. Jafnframt verður fjölskyldusvæði á miðjum vellinum þar sem börnin geta leikið sér á meðan fullorðna fólkið fylgist með golfinu.

Einnig er hægt að taka þátt í Íslandsmótinu með því að gerast sjálfboðaliði. Fjölmarga sjálfboðaliða þarf til að halda glæsilegt Íslandsmót en sjálfboðaliðar fá einnig að fylgjast með mótinu úr nálægð sem fæstum gefst tækifæri á.

Allar nánari upplýsingar um sjálfboðaliðastörfin má finna hér:

Allar nánari upplýsingar um Íslandsmótið veitir framkvæmdastjóri Keilis, Ólafur Þór Ágústsson 896- 4575.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ