Walter Hjartarson. Mynd/GBH.
Auglýsing
Viðtal við Walter Hjartarson úr 5. tbl. Golf á Íslandi 2016:

„Ég hélt á golfkylfu í fyrsta sinn árið 2003 á æfingasvæðinu á Setbergsvelli og frá þeim tíma hef ég haft gríðarleg gaman af þessari íþrótt,“ segir hinn 65 ára gamli kylfingur Walter Hjartarson í samtali við Golf á Íslandi. Walter er einn af fjölmörgum kylfingum sem hafa tekið íþróttina föstum tökum eftir að hafa byrjað frekar seint á lífsleiðinni í þessari frábæru íþrótt.

„Starfsmannafélag eiginkonunnar, Kristbjargar Steingrímsdóttur, stóð fyrir þriggja tíma námskeiði með golfkennara. Það var upphafið á þessu öllu saman. Þegar ég varð fimmtugur fékk ég hvatningu frá mági mínum Rögnvaldi Andréssyni að ná tökum á golfsveiflunni áður en ég yrði of gamall. Rögnvaldur taldi að ég gæti orðið of seinn að byrja og gæti þar af leiðandi bara púttað á elliheimilinu. Ég fór því að æfa mig og það voru hæg heimatökin því við hjónin höfðum byggt okkur hús í nágrenni við Hlíðavöll í Mosfellsbæ og við byrjuðum í Golfklúbbnum Kili árið 2004,“ segir Walter þegar hann er inntur eftir upphafsárunum í golfinu.

Walter æfði mikið þegar hann hóf að leika golf og var nokkuð fljótur að ná tökum á íþróttinni. „Ég var iðinn að æfa mig enda var húsið okkar við hliðina á golfvellinum. Í nokkra vetur fékk ég tilsögn hjá Ragnhildi Sigurðardóttur og Sigurði Hafsteinssyni en þau buðu upp á kennslu í Sporthúsinu. Á sumrin var ég undir handleiðslu Inga Rúnars Gíslasonar í Mosfellsbæ þar sem hann tók okkur eldri kylfingana í kennslu.“

Walter Hjartarson. Mynd/GBH.
Walter Hjartarson. Mynd/GBH.

Walter hóf að keppa á LEK mótaröðinni um leið og hann hafði aldur til og árangurinn lét ekki á sér standa.
„Árið 2011 varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá tækifæri að leika með íslenska landsliðinu í Bratislava með frábærum kylfingum og félögum. Það eru þessi samskipti við golffélagana og útiveran sem heillar mig mest við golfið – ásamt því að gera betur í hverju einasta höggi.“

[quote_box_right]Nafn: Walter Hjartarson
Aldur: 65
Klúbbur: Golfklúbbur Reykjavíkur
Forgjöf: 10,5[/quote_box_right]

Það má með sanni segja að golfið sé fjölskylduíþrótt hjá Walter. „Kristbjörg, konan mín, er á fullu í þessu með mér, eitt barnabarn okkar, Finnbogi Steingrímsson, er að keppa á Íslandsbankamótaröð unglinga. Bróðir minn, Jónas Hjartarson, hefur stundað golfið í mörg ár með fjölskyldunni. Eldri sonur hans, Oddur Óli, sigraði m.a. í Einvíginu á Nesinu í sumar. Það má líka segja frá því að móðir mín, Sigrún Haraldsdóttir, byrjaði að pútta þegar hún var 88 ára og hún æfir sig daglega ef veður leyfir. Hún verður 93 ára nú í desember og hefur unnið til fjölmargra verðlauna fyrir árangurinn.“

Grafarholtsvöllur er einn af uppáhaldsvöllum Walters.

„Krefjandi völlur þar sem leikið er upp og niður brekkur. Áin á Korpunni getur einnig verið snúin ef maður staðsetur sig ekki á réttum stað eftir upphafshöggin. Þessir vellir eru í uppáhaldi hjá mér. Af einstökum holum þá nefni ég 1. brautina á Hlíðavelli í Mosfellsbæ, sem er erfið ef maður hittir ekki flötina. Mér finnst 1. holan í Grafarholtinu mjög heillandi – kannski vegna þess ég er alltaf svo spenntur að byrja. 14. holan á Ánni á Korpunni er með frábært teigstæði og er gaman að slá þaðan. Að lokum er það 2. holan á Hamarsvelli en þar fór ég fyrst holu í höggi og það skilur eftir sérstakar minningar.

Nokkur eftirminnileg atvik af golfvellinum koma upp hjá Walter þegar hann rifjar upp skemmtileg augnablik og golfsögur.

Walter Hjartarson. Mynd/GBH.
Walter Hjartarson. Mynd/GBH.

„Ég sló ömurlegt högg á 12. teig á Hlíðavelli sem er par 3 hola og boltinn fór í lækinn vinstra megin. Ég sló þriðja höggið af teignum og boltinn fór ofan í holuna, létt par. Það var eftirminnilegt. Ég var einnig viðstaddur þegar Birgir Guðbjörnsson félagi minn, KR-ingur og körfuboltakappi, náði því að fara holu í höggi í fyrsta sinn á 13. braut á Strandarvelli á Hellu. „Þetta mun vonandi ekki breyta lífi mínu en það er gott að vera búinn að þessu,“ sagði Birgir eftir höggið.“

[quote_center]
Ég sló ömurlegt högg á 12. teig á Hlíðavelli sem er par 3 hola og boltinn fór í lækinn vinstra megin. Ég sló þriðja höggið af teignum og boltinn fór ofan í holuna, létt par. Það var eftirminnilegt.[/quote_center]

Walter var í golfskóla PGA nemenda árið 2009 á Costa Ballena á Spáni og þar var hann hluti af lokaprófi nemenda.

„Fyrstu dagarnir fóru í æfingar og golfleik en þegar leið á vikuna fóru PGA nemarnir að taka sín lokapróf. Björgvin Sigurbergsson, margfaldur Íslandsmeistari, fékk mig sem verkefni. Það voru nokkrir prófdómarar við borð og þar fyrir aftan gæðaeftirlitsmenn frá Englandi sem voru að taka út námið hjá PGA á Íslandi. Þessar aðstæður voru ekki til þess að láta mig slaka neitt á. Ég stóð þarna með fleygjárnið, skjálfandi og stífur. Ég átti að slá nokkra bolta í átt að holu, 50-60 metra. Það gekk nú nokkuð vel, þeir fóru alla vega í áttina að holunni. Þá var komið að þætti Björgvins að greina það sem mátti laga og leiðrétta hjá mér. Þessi snillingur sagði nokkur vel valin orð sem fengu mig til þess að slaka á. Hann lagaði gripið, stöðuna og allt sem ég gerði rangt í höggunum þar á undan. Ég sló síðan hið fullkomna högg og boltinn endaði rétt við holuna. Þar með lauk prófinu. Ég frétti síðan að Björgvin hefði útskrifast með hæstu einkunn það árið.“

[pull_quote_right]Ég sló síðan hið fullkomna högg og boltinn endaði rétt við holuna[/pull_quote_right]

Walter náði sínum besta árangri í sumar þegar hann lék á 77 höggum á Flórída með Hilmari Sighvatssyni félaga sínum. „Golfsumarið 2016 var gott. Ég dvaldi í þrjár vikur í Bandaríkjunum en árangurinn fór ekki að láta sjá sig fyrr en langt var liðið á sumarið. Markmiðið fyrir næsta sumar er að bæta mitt besta skor.

Nýlega lék Walter golf í Phoenix í Arizona og segir hann að það sé mikið ævintýri. „Það er ótrúlegt að spila golf í 40 stiga hita og finna ekki fyrir því þar sem loftið er það þurrt að það háir manni ekkert í golfleiknum. Næsta golfferð verður sennilega til Bandaríkjanna á ný. Við höfum farið mikið til Suður- og Norður-Karólínu, og einnig til Flórída. Það er aldrei að vita hvar við endum,“ sagði Walter Hjartarson.

Walter Hjartarson. Mynd/GBH.
Walter Hjartarson. Mynd/GBH.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ