/

Deildu:

Auglýsing
– Hjálmar Bogi, formaður Golfklúbbs Húsavíkur, titlar sig forgjafarhæsta formann landsins

„Ég er án efa forgjafarhæsti formaður í golfklúbbi á Íslandi,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason formaður Golfklúbbs Húsavíkur þegar Golf á Íslandi kom þar við á dögunum á meðan keppni í 3. deild karla á Íslandsmóti golfklúbba stóð sem hæst.

Katlavöllur á Húsavík er rótgróinn golfvöllur í gríðarlega fallegu landslagi. Teigar á mörgum brautum standa hátt og útsýnið er stórkostlegt víðsvegar á vellinum. Fjórða braut vallarins er án efa ein sú allra þekktasta á Íslandi. Stutt par 5 hola þar sem flötin liggur inn í lítilli laut. Óhætt er að segja að brautin sé sérstök og ógleymanleg í alla staði.

Hjálmar Bogi er sjálfur nýliði í íþróttinni, er með 36 í forgjöf og markmið sumarsins eru skýr hjá formanninum. „Ég ætla að lækka mig í forgjöf og leika fleiri hringi þar sem ég týni ekki neinum bolta. Ég var með um fimm týnda að meðaltali þegar ég var að byrja en núna er ég aðeins betri á því sviði,“ segir Hjálmar Bogi í léttum tón.

Um 150 félagsmenn eru í Golfklúbbi Húsavíkur og vonast Hjálmar Bogi til að klúbburinn fái vind í seglinn á næstu árum.

„Það er mikil gróska í samfélaginu hérna en okkur vantar að ungt fólk á aldrinum 20-40 ára taki þátt í félagsstarfi og láti að sér kveða. Ég er 36 ára og það vantar fleiri á mínum aldri í starfið okkar. Barna- og unglingastarfið er einnig mikilvægur þáttur sem við gætum sinnt betur. Það er okkar verkefni að finna leiðir til þess að fá fleiri í klúbbinn og efla starfið.“

Hápunktar starfsins hjá GH eru í kringum Mærudaga sem er bæjarhátíð Húsvíkinga. „Þá erum við með stórt mót sem er vinsælt. Það eru nokkrir aðrir slíkir mótaviðburðir sem eru nokkuð stórir á okkar mælikvarða. Meistaramótið hefur hins vegar ekki náð flugi á undanförnum árum og við þurfum að gera betur þar.“

Hjálmar Bogi segir að rekstur klúbbsins gangi vel þrátt fyrir litla fjármuni. Heildarársvelta GH er rétt um 12 milljónir króna sem er um einn tíundi hluti af ársveltu grannaklúbbsins GA á Akureyri.

„Okkur langar að gera ýmislegt til þess að bæta aðstöðuna, færa klúbbhúsið nær bænum, efla barna- og unglingastarfið og þannig mætti lengi telja. Það þarf meira fjármagn og fleiri félaga til þess að við getum tekið næstu skref. Að mínu mati þurfum við að hafa enn skýrari sýn á hvernig við Húsvíkingar viljum að Katlavöllur verði í framtíðinni. Möguleikarnir eru margir og gríðarlega spennandi,“ sagði Hjálmar Bogi.

[pull_quote_right]Golfklúbbur Húsavíkur var stofnaður árið 1967 og er því einn af elstu golfklúbbum landsins. [/pull_quote_right]

Golfklúbbur Húsavíkur var stofnaður árið 1967 og er því einn af elstu golfklúbbum landsins. Á fyrstu árum GH hófust félagsmenn handa við að koma sér upp aðstöðu við Þorvaldsstaði og uppbygging Katlavallar hófst í kjölfarið. Sumarið 1971 var formlega tekinn í notkun 9 holu völlur en sænskur golfvallaarkitekt, Skjöld að nafni, gerði frumdrátt að skipulagi vallarins og var stuðst við teikningar hans í framhaldinu. Sumarið 1975 var farið að leika Katlavöll samkvæmt núverandi skipulagi. Nýtt klúbbhús var reist árið 1977 og er útsýnið úr golfskálanum gríðarlega gott.

Sérstaða Katlavallar er mikið landslag en hann er hæðóttur og nokkuð þungur á fótinn. Mikið er um berjalyng utan brauta en lúpínan hefur tekið þar völdin á undanförnum árum.

Þorvaldsstaðaá rennur í gegnum völlinn og kemur við sögu á alls sex brautum vallarins. Gróður setur mikinn svip á Katlavöll og hafa félagsmenn lagt mikla vinnu í að gera völlinn enn fallegri og skemmtilegri.

img_katla10
Kylfingar á 1. flöt Katlavallar og útsýnið yfir Skjálfanda er frábært. Mynd/seth@golf.is
img_katla9
Þorvaldsstaðaá rennur í gegnum Katlavöll og hér er horft upp eftir ánni og að 3. flöt. Mynd/seth@golf.is
img_katla8
Hér er horft upp eftir 9. braut frá þeim stað þar sem mörg upphafshögg lenda á þessari par 4 holu. Mynd/seth@golf.is
img_hjalmar
Hjálmar Bogi Hafliðason formaður GH. Mynd:seth@golf.is
img_katla7
Kylfingar á 9. flöt á Katlavelli sem er ein af þeim nýrri á vellinum. Flötin á 8. braut sést einnig en lokakafli vallarins er mjög skemmtilegur og eftiminnilegur. Mynd/seth@golf.is
img_katla6
Horft inn eftir 4. braut sem er par 5 hola og er eitt helsta kennileiti Katlavallar. Mynd/seth@golf.is
img_katla5
Kylfingur slær hér af 2. teig á Katlavelli og útsýnið yfir völlinn er glæsilegt. Mynd/seth@golf.is
img_katla4
Fimmta braut Katlavallar er skemmtileg par 3 holar þar sem margar hættur leynast beggja vegna brautarinnar og við flötina. Mynd/ seth@golf.is
img_katla3
Klúbbhúsið á Katlavelli er á frábærum stað og gott útsýni er yfir völlinn frá húsinu. Mynd/seth@golf.is
img_katla2
Gunnar Bragason, fyrrum forseti GSÍ, slær hér á 3. teig á Kötluvelli. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ