/

Deildu:

Frá Urriðavelli. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Golfsamband Íslands hefur, fyrst allra landssambanda í alþjóða golfhreyfingunni svo vitað sé, afnumið ákvæði í reglugerðum sínum um að golfmót á vegum þess þurfi að fara fram á 18-holna völlum. Þetta var samþykkt á fundi laganefndar sambandsins nýverið. Fram til þessa hafa aðeins fáein mót farið fram á níu-holna völlum, einkum barna- og unglingamót auk keppni í neðri deildum Íslandsmóts golfklúbba.

„Þarfir kylfinga og annarra sem hafa áhuga á heilnæmri útivist hafa breyst mikið og munu halda áfram að gera það,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.

 

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.

„Margir segjast ekki hafa tíma fyrir átján holur og vilja fleiri valkosti. Golfsambandið á ekki að standa í vegi fyrir nýsköpun aðildarfélaga sinna og vill því rýmka heimildir í mótahaldi, ekki aðeins til að aðlagast breyttum forsendum, heldur einnig til að hvetja hreyfinguna til dáða og vekja hana til umhugsunar. Í huga okkar er þetta viðeigandi, því hugmyndin um að taka aftur upp sveigjanlegan holufjölda á golfvöllum er íslensk. Hún fellur afar vel að þörfum okkar og aðstæðum, en meirihluti íslenskra golfvalla hefur níu holur, eða færri holur en átján.“ Vísar Haukur þar til hugmynda sem íslenski golfvallahönnuðurinn og ráðgjafinn Edwin Roald hefur þróað og kynnt innanlands og utan, m.a. á vefsvæðinu why18holes.com í tæpan áratug.

Edwin segir næsta skref í innleiðingu sveigjanlegs holufjölda felast í staðfestingu á samstarfi, sem hann vinni nú að með viðeigandi aðilum um aðlögun forgjafarkerfisins að golfvöllum með annan holufjölda en níu eða átján.

Edwin Roald.

„Því miður er ekki enn hægt að leika golf til forgjafar öðruvísi í dag, en áhugi á að bæta úr þessu er að aukast og við leitum nú að heppilegum golfvöllum til að taka þátt í tilraunaverkefni með okkur, sem vonandi gerir fólki kleift að leika hvaða holufjölda sem er til forgjafar, hugsanlega með einhverju lágmarki,” segir Edwin.

Engin merki eru þó um að þetta aukna svigrúm í mótahaldi verði nýtt á komandi leiktímabili, skv. nýútkominni mótaskrá GSÍ. Öll stærri mót fara fram á átján-holna völlum, en á því gæti orðið breyting í framtíðinni. „Með þessari breytingu kemur ekkert í veg fyrir að jafnvel Íslandsmót eða mót á Eimskips-mótaröðinni, mótaröð þeirra bestu, fari fram á völlum með færri holur en átján, eða jafnvel fleiri ef út í það færi. Grundvallarhugsunin er sú að halda mót á bestu völlunum. Holufjöldinn þarf ekki endilega að hafa úrslitaþýðingu. Gæði skipta meira máli en magn,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ