/

Deildu:

Sigurður Pétur Oddsson.
Auglýsing

Sigurður Pétur Oddsson hefur verið ráðinn sem mótastjóri Golfsambands Íslands. Sigurður Pétur mun hafa umsjón með mótum á vegum GSÍ og vera klúbbum, keppendum og samstarfsaðilum innan handar við mótahald og skipulagningu. Sigurður tekur við starfi mótastjóra af Andreu Ásgrímsdóttur.

„Vægi mótahalds á vegum GSÍ hefur á undanförnum árum aukist jafnt og þétt. Auknar kröfur eru gerðar til GSÍ og golfhreyfingin hefur metnað til þess að standa vel að mótamálum og gera enn betur með hverju árinu sem líður. Sigurður Pétur er þaulreyndur keppnismaður í golfi sjálfur en hann var í fremstu röð sem afrekskylfingur hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann þekkir því mótahaldið vel og þær væntingar sem keppendur og aðrir hafa til GSÍ móta – þá sérstaklega á Eimskipsmótaröðinni.  

Við hlökkum til að fá Sigurð Pétur með okkur í lið í sumar. Jafnframt viljum við þakka Andreu Ásgrímsdóttur kærlega fyrir hennar framlag í þessu starfi s.l. ár. Andrea lagði góðan grunn í þessum málum, sem við getum nýtt okkur, og byggt ofaná jafnt og þétt á næstu árum,“ segir Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ.

Sigurður Pétur, sem starfar einnig sem vörustjóri hjá Vodafone, hefur áður starfað innan golfhreyfingarinnar bæði fyrir Golfklúbb Reykjavíkur og Pro Golf. Sigurður er með Bs. gráðu í viðskiptafræði og leggur stund á framhaldsnám í markaðsfræði.

„Það er gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í og leiða þau verkefni sem snúa að mótastarfi hjá GSÍ. Mikið og gott starf hefur verið unnið þar síðustu ár. Það verður gaman að taka við keflinu.  Markmiðið er að gera mótastarf GSÍ enn betra, með öllu því góða fólki sem að hreyfingunni kemur. Ég hef verið tengdur golfhreyfingunni frá unga aldri frá ólíkum hliðum hennar og er það trú mín að sú reynsla sem ég hef aflað mér í gegnum tíðina komi til með að nýtast GSÍ vel,“ segir Sigurður Pétur Oddsson.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ