/

Deildu:

Auglýsing
– Steindór Ragnarsson vallarstjóri þekkir hvert strá á Jaðarsvelli

Steindór Ragnarsson vallarstjóri Jaðarsvallar þekkir nánast hvert grasstrá á vellinum en hann hefur unnið á vellinum frá því hann var unglingur. Hinn 33 ára gamli vallarstjóri hefur haft í mörg horn að líta undanfarin misseri og sl. vetur var annasamur svo ekki sé meira sagt.

Steindór segir að allir vallarstarfsmenn og félagar í Golfklúbbi Akureyrar reyni sitt allra besta til þess að bjóða keppendum á Íslandsmótinu í golfi 2016 upp á sem bestar aðstæður á frábærum keppnisvelli.

„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur í vetur og þá sérstaklega þar sem við vorum einnig að vinna við að klára æfingaaðstöðuna, Klappir, ásamt verktökum. Ég var stundum órólegur yfir veðurfarinu í vetur og maður var aðeins stressaður í vor þegar við fengum ekki alveg kjöraðstæður í veðrinu fyrir grasið á flötunum. Ástandið hefur hins vegar verið mjög gott undanfarnar vikur í byrjun sumars og það eina sem við söknum er að fá ekki meiri rigningu með þessum góða lofthita.“

Steindór Ragnarsson vallarstjóri GA. Mynd/seth@golf.is

Steindór er lipur kylfingur og er með 9 í forgjöf. Hann stundar golfíþróttina eins og hægt er með fram krefjandi starfi. „Ég byrjaði hérna sem unglingur 15-16 ára gamall og hef verið hér síðan. Ég menntaði mig í grasvallafræðum í Elmwood í Skotlandi líkt og margir aðrir Íslendingar. Ég tók við sem vallarstjóri á Jaðarsvelli 2004 og hef verið hér síðan.“

[pull_quote_right]Gríðarlegar breytingar hafa verið gerðar á Jaðarsvelli frá því að Íslandsmótið fór þar fram síðast árið 2000. Aðeins einn teigur er enn óbreyttur á vellinum en búið er að skipta um allar flatir, svuntur og teiga.[/pull_quote_right]

„Við byrjuðum á því að skipta út 11. flötinni þegar þessar framkvæmdir hófust og við lukum við hringinn fyrir tveimur árum þegar við lukum við nýja 10. flöt. Þetta er búið að vera mikið púsluspil frá þeim tíma. Alls konar vandamál sem hafa komið upp og veðurfarið hefur breyst mikið á undanförnum árum miðað við það sem var áður. Það er meira um kal en við höfum fengið gríðarlega reynslu í því að sá grasfræjum og þekkingin hefur aukist. Í dag notum við mest túnvingul í sáningar og það hefur reynst vel. Sáningarnar í vor tókust vel, það gerðist mikið á 2-3 vikum og þetta verður vonandi allt í toppstandi þegar Íslandsmótið hefst.“

Langir vinnudagar

Vinnudagarnir hjá vallarstarfsmönnum á Jaðarsvelli verða eins og áður segir langir á meðan á Íslandsmótinu stendur. Vinnudagurinn hefst um 4 að morgni í Íslandsmótsvikunni og menn vinna þangað til að verkefnum dagsins er lokið.

„Markmiðið hjá okkur og klúbbnum er að kylfingar fái góða upplifun af vellinum. Við reynum að slá flatirnar eins seint og hægt er á hverjum degi á meðan mótið fer fram. Til þess að það verði ekki mikill munur á aðstæðum fyrir þá sem leika síðar um daginn. Ég vona bara að skorið verði sem allra best og við ætlum ekki að vera með ofsahraða á flötunum í stimpmetrum, 9 á stimp væri glæsilegt. Það eru 12 manns að vinna á vellinum og þar að auki fáum við um 10 úr vinnuskólanum okkur til aðstoðar,“ segir Steindór.

Séð yfir 15. braut sem er nokkuð snúinn par 5 hola og þar gætu óvæntir atburðir gerst. Mynd/Pedromyndir.

Vélakostur GA er að sögn vallarstjórans með ágætum en sem sannur græjukall þá segir Steindór að alltaf sé rými fyrir nýjar og enn betri vélar.

„Jaðarsvöllur er frekar flókinn í umhirðu og ég efast um að það sé til erfiðari völlur hvað það varðar. Stórir flatar sem þarf að slá utan brauta, mikill handsláttur með Flymo-vélum og sláttuorfi í krinsgum teiga og slíkt. Á næstu árum verður það markmiðið að einfalda allt aðgengi fyrir stórar sláttuvélar á vellinum og gera umhirðuna einfaldari og hagkvæmari. Samhliða því getum við farið að sinna ýmsum smáatriðum enn betur sem snúa að snyrtimennsku á vellinum,“ sagði Steindór Ragnarsson vallarstjóri Golfklúbbs Akureyrar.

Steindór Ragnarsson vallarstjóri GA. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ