/

Deildu:

Egils-Gullmótið 2016 Eimskipsmótaröðin.
Hulda Clara Gestsdóttir.
Auglýsing

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, er yngsti keppandinn í kvennaflokki á Egils-Gullmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem hófst á Strandarvelli á Hellu í dag. Hulda Clara er fjórtán ára gömul, fædd árið 2002 og fermdist í vor.

Það var gott hljóðið í Huldu Clöru þegar golf.is spjallaði við hana eftir að hún hafði lokið keppni í dag.

„Það gekk ágætlega í dag, fyrri níu voru betri hjá mér, ég var einu höggi yfir pari þar en átta yfir á seinni níu. Þetta var ágætur hringur hjá mér í heildina en ég fékk tvo tvöfalda skolla í röð, á fjórtándu og fimmtándu þannig að þetta hefði alveg mátt fara betur,“ sagði Hulda Clara.

„Ég var með leikskipulag fyrir daginn og fór eftir því. Ég týndi svo boltanum eftir upphafshöggið á fjórtándu þannig að ég þurfti að taka víti af teig. Ég hélt að það væri allt í lagi með boltann, en við fundum hann ekki. Þetta verður betra á morgun, ég verð með svipað leikskipulag fyrir morgundaginn,“ segir Hulda sem var ánægð með aðstæður á Strandarvelli í dag.

„Völlurinn er fínn, flatirnar eru ágætar en brautirnar eru þurrar þannig að boltinn skoppaði mikið og ég gat ekki lent inni á flöt án þess að boltinn færi yfir.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Hulda Clara tekur þá í móti á Eimskipsmótaröðinni og hún segir að það sé gaman að prófa það. Hún geti þó ekki svarað hvort hún taki þátt í fleiri mótum á mótaröðinni.

„Ég veit það ekki, ég ætla bara að prófa þetta núna og sjá svo til. Ég er líka að keppa á Íslandsbankamótaröðinni þannig að þetta gæti orðið dálítið mikið að keppa um hverja helgi.“

Kylfingurinn efnilegi hlær þegar hún er spurð að því hvort hún hafi sett sér markmið fyrir helgina. „Já, ég ætlaði ekki að lenda í síðasta sæti. Ég er ánægð með að ég er á góðri leið með að ná því markmiði en annars stefni ég bara að því að lækka hjá mér forgjöfina.“

Hún er yngsti kylfingurinn í kvennaflokki á mótinu og segir að aldurinn skipti engu máli og keppinautarnir taki sér vel.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ