/

Deildu:

Urriðavöllur.
Auglýsing

Emil Emilsson sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Golfklúbbsins Odds síðastliðin fimm ár hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu og halda á önnur mið. Stjórn klúbbsins hefur ákveðið að ráða Þorvald Þorsteinsson í hans stað.  Þorvaldur mun koma til starfa þann 1. mars n.k. og taka við framkvæmdastjórastöðunni um miðjan apríl en Emil mun verða starfandi með okkur að undirbúningi golftímabilsins fram að þeim tíma.

Þorvaldur er félagsmönnum í Oddi að góðu kunnur. Hann hefur verið félagi í klúbbnum í fjölda ára og verið gjaldkeri klúbbsins síðastliðin 4 ár. Hann er því öllum hnútum kunnugur í starfi klúbbsins og fengur að fá hann til frekari starfa í þágu klúbbsins. Þorvaldur er viðskiptafræðingur að mennt og starfaði síðast hjá Landsbankanum sem deildarstjóri einkabankaþjónustu. Um leið og Þorvaldur er boðinn velkominn til starfa er Emil þakkað fyrir vel unnin störf undanfarin ár.

Efnisflutningar um Urriðavöll

Eins og félagsmenn sem hafa átt leið um Urriðavöll í vetur hafa tekið eftir hefur mikil umferð flutningabifreiða farið um heimkeyrslu og meðfram 1. og 2. annarri braut vallarins.  Verið er að flytja jarðefni frá nýrri byggð í Urriðaholti inn fyrir 5. braut Urriðavallar og er þetta gert samkvæmt samningi við landeigendur.  Talsverðar skemmdir hafa orðið á vegum og næsta umhverfi þeirra vegna þessara flutninga.  Okkur er tjáð að efnisflutningunum verði hætt um næstkomandi mánaðarmót og að bráðabirgðaviðgerð muni fara fram um leið og flutningum lýkur. Fullnaðarviðgerðum á svo að verða lokið um miðjan apríl. Við berum þá trú og von að völlurinn okkar og umhverfi hans verði jafn fagurt á eftir sem áður.

Ástand valla

Starfsmenn okkar hafa í vetur unnið ötullega að því að fyrirbyggja klakamyndun á flötum vallanna.  Þeirra vinna hefur gefist vel og allt útlit fyrir að flatirnar komi vel undan vetri ef ekkert óvænt gerist úr þessu.

Aðstaðan í Kauptúni

En nú líður að vori og ekki nema um þrír mánuðir þar til vellir opna inn á sumarflatir.  Það er því tilvalið að nýta sér aðstöðuna okkar í Kauptúni til að æfa sveifuna, vippin og púttin.  Golfkennararnir okkar bjóða upp á námskeið fyrir byrjendur sem og lengra komna og gaman er að spreyta sig í golfhermunum.  Upplýsingar um námskeið og opnunartíma í Kauptúni má finna á síðunni okkar www.oddur.is

Ingi Þór Hermannsson, formaður

Þetta kemur fram á heimasíðu klúbbsins www.oddur.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ