Í síðustu viku lauk hérðasdómaranámskeiðum GSÍ fyrir árið 2025.
Námskeiðin voru haldin í tveimur hlutum, annars vegar opið námskeið þar sem 216 þátttakendur voru skráðir og hins vegar sérnámskeið fyrir PGA skólann, þar sem 42 golfkennaranemar tóku þátt í námskeiðinu. Alls voru þáttakendur því 258
Þetta mun vera mesti fjöldi sem sótt hefur grunnnám í golfreglunum frá upphafi, en þátttaka á þessum námskeiðum er án endurgjalds fyrir aðila innan GSÍ.
Fyrir þau sem vildu var boðið upp á próf til að öðlast réttindi héraðsdómara. Alls tóku 125 prófið, þar sem 99 stóðust prófið. Af þessum 99 fengu 92 réttindi héraðsdómara, en 7 voru undir tilskyldum aldri til að öðlast réttindin. Lágmarksaldur dómara í golfi er 18 ár.
Námskeiðið í ár var haldið í formi fyrirlestra í fjarfundi, en tæplega 90 sóttu erindin “í beinni” þegar mest var, en margir skoðuðu upptökur fyrirlestrana á þeim tima sem þeim hentaði best, áhorf á upptökur voru frá 150 upp í 350 . Allir fyrirlestrar voru teknir upp og gerðir aðgengilegir öllum skráðum þátttakendum.
Þessi námskeið eru haldin árlega af dómaranefnd GSÍ og hentar bæði byrjendum og lengra komnum til að læra golfreglunar. Engin krafa er gerð um próftöku þegar námskeiðin eru sótt. Þá fylgir ekki heldur dómgæsluskylda þótt þátttakendur standist prófið, nema ætlunin sé að halda réttindum við, þá þarf að dæma og skila inn skýrslum árlega til dómaranefndar.
Dómaranefnd vill þakka öllum sem tóku þátt í þessum námskeiðum í ár og vonast til þess að sjá enn fleiri þátttakendur á næsta ári.