Auglýsing

Golfsamband Ísland fékk fyrr á þessu ári KPMG til samstarfs um ítarlega greiningu á tölfræði keppenda í fyrri Íslandsmótum í golfi sem nú hefur sett saman í aðgengilegt mælaborð. Verkefnið er kynnt nú í aðdraganda að Íslandsmótinu í golfi sem fram fer dagana 18.-21. júlí. 

KPMG hefur verið stuðningsaðili Golfsambandsins til fjölda ára og samstarfið verið afar farsælt. Golfíþróttin er mjög vaxandi á Íslandi og hefur KPMG sérstaklega beint sjónum sínum að því að styðja við uppbyggingarstarf íþróttarinnar. Þá hefur KPMG einnig lagt áherslu á að styðja við ungar afrekskonur í golfi og var lengi vel aðal stuðningsaðili Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur sem náði frábærum árangri í golfíþróttinni á alþjóðlegum vettvangi.

Til þess að afrekskylfingar landsins geti tekið betri ákvarðanir í sínum leik hafa ráðgjafar KPMG greint fyrirliggjandi gögn um Íslandsmót GSÍ allt frá árinu 2001 og sett ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram í mælaborði á vef KPMG. Um er að ræða mikið magn af gögnum sem sett eru fram með einföldum hætti og veita því innsýn í fjölmarga þætti í leik kylfinga í gegnum tíðina. Þar má nefna hvaða holur hafa reynst erfiðastar á Íslandsmótum fyrri ára, hvaða keppendur hafa náð besta skori að meðaltali, ásamt ýmsum öðrum fróðleik. 

KPMG mun einnig stilla upp tölfræði í útsendingu sjónvarpsins frá Íslandsmótinu sem framundan er. Það verður lögð áhersla á að draga fram áhugaverða tölfræðiþætti sem tengjast sterkustu kylfingum landsins og einnig tölfræði frá Íslandsmótinu sem fram fór síðast á Hólmsvelli í Leiru árið 2011.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi, segir að fyrirtækið sé stolt af samstarfinu við Golfsamband Íslands í gegnum tíðina. 

„Það er okkur mikilvægt að geta stutt við golfíþróttina á Íslandi með fjölbreyttum hætti, hvort sem er almenn útbreiðsla, ungliðastarf eða með öflugri greiningarvinnu eins og við erum að kynna nú í dag. Það er mikilvægt fyrir kylfinga, rétt eins og stjórnendur félaga í rekstri, að geta reitt sig á öflugar upplýsingar sem auðvelda þeim að taka réttar ákvarðanir. Við hjá KPMG leggjum mikið upp úr því að nýta innsæi og þekkingu til að ná meiri árangri fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Hlynur. 

„Farsælt samstarf Golfsambands Íslands og KPMG er okkur mjög mikilvægt en fyrirtækið hefur aðstoðað okkur undanfarin ár við mörg mikilvæg mál tengd stefnu Golfsambandsins. Við erum virkilega þakklát KPMG fyrir þessa miklu vinnu sem lögð var til í tengslum við samantekt á tölfræði um Íslandsmótið í golfi,“ segir Brynjar Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands.

Hér má nálgast mælaborðið á vefsíðu KPMG.



Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ