Gunnlaugur Árni Sveinsson sigraði í kvöld á The Blessings Collegiate Invitational – en mótið er hluti af keppni í efstu deild NCAA háskólagolfsins í Bandaríkjunum.
Gunnlaugur Árni hóf nám í haust í LSU háskólanum og er hann á fyrsta ári sínu með liðinu.
Mótið sem Gunnlaugur Árni vann var það þriðja sem hann tekur þátt í á tímabilinu. Þetta var í annað sinn sem Gunnlaugur Árni var í sigurliði á háskólamóti – og í fyrsta sinn í einstaklingskeppni.
Íslenski landsliðskylfingurinn úr GKG lék frábært golf en hann lék hringina þrjá á 71-67- 71 eða 7 höggum undir pari vallar í Fayetteville, Arkansas. Gunnlaugur Árni sigraði með þriggja högga mun en liðsfélagi hans Algot Kleen frá Svíþjóð lék á -4 samtals en hann lék lokahringinn á 63 höggum eða -8.
Karlalið LSU sigraði með yfirburðum í liðakeppninni.
Smelltu hér fyrir lokastöðuna:
LSU háskólinn í Bandaríkjunum hefur á undanförnum árum verið á meðal bestu háskólaliða í golfíþróttinni. Gunnlaugur Árni er fyrsti íslenski kylfingurinn sem leikur með LSU háskólaliðinu í golfi en næsta haust mun Perla Sól Sigurbrandsdóttir hefja nám við LSU.