/

Deildu:

Auglýsing

Axel Bóasson úr GK jafnaði vallarmetið í Leirdalnum á Íslandsmótinu í höggleik þegar hann lék á 64 höggum, sjö undir pari, í dag. Axel lék töluvert betur í dag en fyrstu tvo dagana en hann spilaði á tveimur yfir pari á fyrsta deginum og á pari vallarins í gær. Axel er því fimm höggum undir pari samanlagt.

“Þetta gekk bara mjög vel og ég er sáttur við leikinn í dag,” sagði Axel strax að hring loknum. Hann segist ekki hafa spilað meira sóknargolf í dag en fyrstu tvo dagana. “Ég hitti bara flatirnar í dag,” sagði Axel og hló. “Ég var einmitt að segja það við kylfusveininn minn að á fyrstu þremur holunum í dag var ég búinn að hitta fleiri flatir en á fyrstu níu holunum í gær.”

Axel segist ekki ætla að spila öðruvísi golf á morgun en síðustu daga. “Nei, nei. Ég ætla bara að halda mig við mitt skipulag og vona bara að pútterinn sjái um þetta.”
Hann segist sáttur við mótið og sérstaklega völlinn. “Vallarstarfsmennirnir hafa náð að gera hann alveg ótrúlega góðan. Það hefur rignt mikið og það var mikil bleyta í vellinum en þeir hafa náð að vinda úr henni. Það eru einhver för eftir vinnutækin en hann er samt í ótrúlegu standi.”

Axel verður í lokaráshópnum á morgun með Birgi Leifi Hafþórssyni úr GKK og Þórði Rafni Gissurarsyni úr GR.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ