Guðmundur Oddsson formaður GKG lætur sig dreyma um góðviðri og fjölmenni á Íslandsmótinu í höggleik en ítarlegt viðtal er við Guðmund í 3. tbl. tímaritsins Golf á Íslandi sem kom út í þessari viku. Formaðurinn hefur í mörg horn að líta þessa dagana þar sem að Íslandsmótið í golfi hefst á fimmtudaginn á Leirdalsvelli en skólastjórinn fyrrverandi úr Kársnesskóla í Kópavogi, sér á hverjum degi eftir því að hafa ekki byrjað í golfíþróttinni fyrr á ævinni en hann hefur gegnt embætti formanns Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar í níu ár.
Guðmundur segir að margir hafi undrast þegar hann hafi sótt um að GKG fengi að halda Íslandsmótið í höggleik árið 2014 en umsóknin var lögð fram mörgum árum áður en Leirdalsvöllur var opnaður formlega. Formaðurinn segir að framtíðin sé björt hjá GKG á 20 ára afmælisári og Íslandsmótið í höggleik á Eimskipsmótaröðinni verði hápunktur afmælisársins.
Golf á Íslandi náði tali af Guðmundi rétt áður en hann átti að hefja leik á meistaramóti GKG í mikilli veðurblíðu. Hann rifjaði upp hvernig það kom til að Íslandsmótið í höggleik fer nú fram á Leirdalsvelli.
„Á formannafundi í Vestmannaeyjum á fyrsta eða öðru árinu sem ég var formaður þá stóðu menn upp og lýstu því yfir að það væru stórir áfangar hjá þeirra klúbbum á næstunni. Og þeir voru að óska eftir því að þeirra klúbbar fengju að halda Íslandsmótið í höggleik. Á þessum tíma var GKG ekki nema 12 ára og ég stóð líka upp og fór upp í pontu. Þar sagði ég að GKG yrði 20 ára árið 2014 og sótti með formlegum hætti um að fá að halda Íslandsmótið í höggleik á því ári. Þetta hefur verið átta ára meðganga og völlurinn okkar var ekki tilbúinn þegar við sóttum um. Reksturinn var í góðu lagi hjá okkur og mikil uppbygging í gangi – og Jón Ásgeir Eyjólfsson þáverandi forseti Golfsambandsins tók mjög vel undir þessa umsókn GKG og við þökkum honum fyrir stuðninginn sem hann sýndi okkur.“
Sé eftir að hafa ekki byrjað fyrr
Guðmundur dregur ekki úr því að hann hafi ekki enn náð tökum á golfíþróttinni en hann sér eftir því að hafa ekki þegið boð tengdaföður síns um að byrja í golfi árið 1968.
„Tengdafaðir minn, Stefán Ólafsson múrari, stofnaði golfklúbbinn á Ólafsfirði árið 1968. Á þeim árum gerðu þeir upp á sitt einsdæmi að ryðja tún og annað sem til þurfti til að hægt væri að leika golf. Hann var alltaf að bjóða mér að koma með og taka þátt – ég fann mig ekki alveg í þessu á þeim tíma og ég beið í 40 ár. Þegar ég hætti að vinna fór ég að slá golfbolta til þess að finna mér eitthvað að gera. Við hjónin fórum síðan út til Islantilla á Spáni í golfferð án þess að kunna nokkuð og þar tók Sigurður Hafsteinsson okkur opnum örmum og leiddi okkur í gegnum fyrstu skrefin í þessari frábæru íþrótt. Við fórum einnig til Magnúsar Birgissonar sem var þá kennari hér við GKG og þetta var árið 1997. Ég sé eftir því á hverjum einasta degi að hafa ekki byrjað þegar tengdapabbi bauð mér að vera með árið 1968 þá hefði maður kannski getað eitthvað í golfi. Þegar viðrar þá förum við hjónin í golf,“ segir Guðmundur en eiginkona hans er Sóley Stefánsdóttir.
Formaðurinn segir að rekstur GKG sé góður og framtíðin sé björt – sérstaklega í barna- og unglingastarfinu.
„Reksturinn hjá GKG hefur verið með „grænum tölum“ á undanförnum árum. Allt frá 7 og upp í 30 milljóna kr. hagnaði. Þessir fjármunir eru ekki til í bauk uppi í hillu hjá okkur en eru verðmæti sem við eigum í formi tækja og ekki síst vellinum sjálfum. Það hefur verið gríðarlegur vöxtur hjá okkur á undanförnum árum. Þegar GKG var stofnaður voru um 250 félagar og í dag eru þeir um 1900 ef allt er talið með. Við höfum í raun ekki getað tekið við fleirum félagsmönnum í nokkur ár. Við erum með 1300 félaga sem greiða fullt gjald, um 200 „ellismelli“ og þeim fjölgar frá ári til árs. Það sem eftir situr eru börn og unglingar og við setjum engin mörk á það. Það voru 1914 skráðir í GKG á árinu 2013, og mér sýnist að þessi fjöldi sé enn til staðar. Það eru 70% karlar og 30% konur og þessi kynjaskipting hefur verið til staðar hjá klúbbnum frá upphafi. Kópavogsbúar eru 42%, 27% úr Garðabæ og svipað úr Reykjavík. Það eru ekki margir úr öðrum sveitarfélögum.“
Áhugi og metnaður þjálfaranna smitar frá sér
Formaðurinn segir að mikill áhugi og metnaður þjálfara GKG smiti frá sér í öflugu innra starfi.
„Barna- og unglingastarfið er okkar flaggskip. Við höfum verið með mjög öflugt starf á upphafsárum klúbbsins og höfum bætt við það smátt og smátt eftir því sem tíminn hefur liðið. Gunnar Jónsson var forystumaður í unglingastarfinu í upphafi. Í dag erum við með frábæra þjálfara undir stjórn Úlfars Jónssonar íþróttastjóra GKG. Áhuginn og metnaðurinn sem þjálfarar GKG hafa smitar út frá sér í starfið hjá okkur og við erum ákaflega stolt af okkar ungu kylfingum. Það er enn verk að vinna hvað stelpurnar varðar í okkar röðum en strákarnir hafa unnið marga titla á undanförnum misserum.“
Ný íþróttamiðstöð eða klúbbhús hefur verið aðkallandi verkefni í formannstíð Guðmundar og hann vonast til þess að framkvæmdir hefjist í haust við byggingu á nýju fjölnota mannvirki.
„Að byggja yfir félagsstarfið hefur verið stærsta verkefnið í minni formannstíð og einnig fyrrum formanna GKG. Það hefur tekið tíma að fá lóð undir nýjan golfskála eða íþróttamiðstöð. Það hafa verið deildar meiningar um hvar þessi skáli ætti að vera staðsettur. Það var gerð könnun hjá félagsmönnum GKG og 70% þeirra vildu að skálinn yrði staðsettur þar sem nýi Leirdalsvöllurinn og sá eldri mætast.
Kosturinn við að hafa skálann þar var að hægt var að vera með þrjár 9 holu einingar sem hefði verið mjög hagkvæmt fyrir reksturinn. Það gekk ekki upp þar sem að ekki náðist samkomulag við Garðabæ um þessa staðsetningu. Í dag hefur náðst sátt við alla aðila um að reisa nýja íþróttamiðstöð á því svæði þar sem gamli skálinn er í dag og vonandi verður hafist handa við þær framkvæmdir í haust.“
Dreymir um gott veður á Íslandsmóti
Þegar Guðmundur leggst á koddann á kvöldin lætur hann sig dreyma um góðviðri og fjölmenni á Íslandsmótinu í höggleik.
„Ég læt mig dreyma um að mörg hundruð áhorfendur mæti hér í Leirdalinn til þess að upplifa stemninguna á þessu móti. Þetta fer reyndar allt eftir veðri og ef það verður í lagi þá fáum við þúsundir manna á þetta glæsilega mót,“ sagði Guðmundur Oddsson formaður GKG.