Fyrsta tölublað ársins af tímaritinu Golf á Íslandi er á leiðinni inn um bréfalúguna hjá kylfingum. Að venju er fjölbreytt efni í blaðinu en alls er blaðið 148 síður. Í blaðinu er að finna áhugavert viðtal við Margréti Óskarsdóttur sem hóf leika að golf eftir að hafa séð kylfinga að leik í lestarferð í Skotlandi.
Konur eru áberandi í fyrsta tölublaðinu en einnig er rætt við Huldu Birnu Baldursdóttur sem er framkvæmdastjóri Stelpugolfs sem fram fer í lok maí.
Rætt er við íslenska afrekskylfinga, staðan tekin á háskólakylfingunum sem eru flestir að snúa heim til Íslands eftir vetrardvöl í Bandaríkjunum.
Farið er yfir stöðu mála á golfvöllum landsins og ítarleg grein er um ástand golfvalla landsins.
Í blaðinu er einnig greint frá því að bandarískur ofurhlaupari reynir við Guinness-heimsmet á Strandarvelli í júní en hann ætlar að reyna að leika 24 hringi á einum sólarhring?
Fjórir fyrrverandi Íslandsmeistarar, Sigmundur Már Einarsson, Herborg Arnarsdóttir, Örn Ævar Hjartaron og Þórður Emil Ólafsson, svara fimm spurningum.
Greint er frá ýmsum breytingum sem eru í gangi á íslenskum golfvöllum og þar má nefna að GKG stefnir á að hefja framkvæmdir við nýja íþróttamiðstöð í haust en hún munl leysa af hólmi gamla klúbbhúsið. Einnig eru fyrirhugaðar breytingar á Grafarholts – og Hvaleyrarvelli til umfjöllunnar.
Fjölbreytt erlent efni er að finna í Golf á Íslandi. Þar má nefna að golfíþróttin blómstrar í Asíu, sérstaklega í Kína og S-Kóreu. Hvernig verða allir þessir ungu efnilegu kylfingar til?, er áhugaverð grein þar sem rýnt er í góðan árangur Asíubúa í golfíþróttinni.
Íslensku mótaraðirnar, Eimskips og Íslandsbanka eru einnig til umfjöllunnar. Miklar vonir eru bundnar við nýja Öldungamótaröð í sumar þar sem markmiðið er að ná til fleiri kylfinga en áður hvað keppnishaldið varðar.
Þetta er aðeins lítið brot af því efni sem er að finna í Golf á Íslandi sem er dreift inn á heimili 17.000 félagsbundinna kylfinga á Íslandi.