Þórður Rafn Gissurarson endaði í 10.–12. sæti á Open Madaef atvinnumótinu sem fram fór í Marokkó. Þórður byrjaði gríðarlega vel á fyrsta keppnisdeginum þar sem hann var efstur á -4 þar sem hann lék á 68 höggum. Hann náði ekki að fylgja því eftir og lék næstu tvo hringi á 75 og 77 höggum.
Þetta er ellefta mótið hjá Þórði á tímabilinu og er þetta næst besti árangur hans á mótaröðinni. Besti árangur Þórðar Rafns er áttunda sætið á þessu tímabili.
Næsta mót er eftir fjórar vikur í Austurríki.
Fimm efstu á stigalista Pro Golf mótaraðarinnar tryggja sér sæti á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili – sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í Evrópu. Að auki tryggja þeir sér sæti á öðru stigi af alls þremur á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina.
Pro Golf mótaröðin, er einnig þekkt undir nafninu EPD mótaröðin, en frá árinu 2001 hefur mótaröðin verið í flokki mótaraða sem teljast til þriðju deildar í Evrópu.
Margir þekktir kylfingar hafa farið í gegnum Pro Golf mótaröðina og má þar nefna Martin Kaymer frá Þýskalandi, sem hefur sigrað á risamóti og leikið með Ryderliði Evrópu. Marcel Siem, landi hans, hefur einnig farið í gegnum þessa mótaröð.