Egils-Gullmótið 2016 Eimskipsmótaröðin.
Andrea Ásgrímsdóttir, mótastjóri GSÍ.
Auglýsing

Andrea Ásgrímsdóttir, mótastjóri GSÍ, segir að Egils-Gullmótið á Eimskipsmótaröðinni sem hófst í dag á Strandarvelli á Hellu fari vel af stað og útlit sé fyrir spennandi keppni um helgina.

„Þetta fer mjög vel af stað hjá okkur í dag, við erum heppin með veður, leikhraðinn hefur verið nokkuð góður og þetta er búið að rúlla vel,“ segir Andrea. „Það var svolítið kalt í morgun þegar við vorum að hefja leik en sólin hefur skinið á okkur inn á milli. Það er erfitt að segja hvort kuldinn hafi haft áhrif á spilamennskuna en við erum að fá góð skor og það eru margir í kringum parið.“

Alls hófu 106 keppendur leik í dag, 87 karlar og nítján konur. Eftir tvo hringi verður keppendafjöldinn skorinn niður en á sunnudag munu 63 karlar og nítján konur spila lokahringinn.

Andrea segir að Strandarvöllur sé í ágætu standi. „Það má samt ekki gleyma því að núna er 20. maí og vorið er búið að vera kalt og þurrt, en þannig er þetta bara, við búum á Íslandi. Flatirnar eru misgóðar en ég held að við getum ekki kvartað mikið og mér heyrist keppendurnir heldur ekki gera það,“ segir Andrea og hún á von á spennandi keppni um helgina.

„Já, ég sé fram á mjög spennandi mót um helgina, bæði í karla og kvennaflokki. Það er mjög skemmtilegt að sjá að við erum með Daníel Ísak Steinarsson, ungan strák í forystu ásamt Andra Þór Björnssyni eftir fyrsta hring, báðir á fjórum höggum undir pari. Stelpurnar eru líka að koma inn á góðu skori, Berglind Björnsdóttir og Ólöf María Einarsdóttir á 72 höggum og stutt í næstu á eftir þeim. Það eru margir sem geta sýnt góða spilamennsku og barist um sigurinn á sunnudaginn.“

Áhorfendur á Strandarvelli voru ekki margir í dag en Andrea vonar að þeim muni fjölga um helgina. „Við höfum reynt að kynna mótið vel og það er alltaf gaman að mæta á svæðið og fylgjast með keppninni. Strandarvöllur er líka mjög áhorfendavænn, þú getur séð margar holur frá sömu stöðunum. Það er skemmtilegur bíltúr að koma hingað og fylgjast með og fá góða útiveru í leiðinni.“

eimskip_golf_gull_gk

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ