*16.820 kylfingar skráðir í golfklúbba landsins
*13% aukning í hópi 50 ára og eldri
*Eftirspurnin í golf á síðustu 16 árum hefur verið gríðarleg
*60.000 Íslendingar fara í golf a.m.k. einu sinni á ári
Kylfingar hafa aldrei verið fleiri en nú og eru 16.820 skráðir í golfklúbba víðsvegar um landið. Þetta er aukning um tæplega 400 kylfinga frá árinu í fyrra. Fjölgunin er hvað mest í golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesinu.
[pull_quote_right]Gott veðurfar, aukin markaðssetning og fjölbreyttara framboð á félagaaðild gætu verið líklegar skýringar á fjölguninni.[/pull_quote_right]
Þegar rýnt er í tölurnar þá kemur í ljós að aukningin er mest hjá fólki sem er 50 ára og eldri en sá hópur stækkar um heil 13% milli ára. Á móti er fækkun í hópi fólks milli 22-49 ára og nemur fækkunin um 7%. Einnig fækkar börnum og unglingum yngri en 14 ára um 12%.
Í dag eru 55% allra kylfinga eldri en 50 ára og í þeim aldurshópi eru flestir nýliðarnir. Þar sem færri nýliðar undir 50 ára byrja í golfi má segja að meðalaldur kylfinga sé að hækka verulega hér á landi. Meðalaldur kvenkylfinga er nú 52 ár og karlkylfinga 46 ár.
Eftirspurnin í golf á síðustu 16 árum hefur verið gríðarleg. Í samanburði við árið 2000 þá hefur kylfingum fjölgað um rúmlega átta þúsund og því næst tvöfaldast á þessu tímabili. Á árunum 2000 til 2005 má segja að árlega hafi fjölgun kylfinga verið um 12%, en síðustu fimm ár hefur aukningin verið að meðaltali um 1%.
Ef við setjum þessa stærð í samhengi við aðrar íþróttagreinar í landinu þá er knattspyrnusambandið stærst með rúmlega 22.000 félaga, en næst kemur golfsambandið með tæplega 17.000 félaga. Fimleikar og hestaíþróttir koma þar næst.
Capacent framkvæmir árlega neyslu- og lífstílskönnun þar sem fram kemur að um 60.000 Íslendingar fara í golf a.m.k. einu sinni á ári. Það má því segja að áætlaður fjöldi kylfinga sé þrefalt meiri en þeir sem eru skráðir í klúbba. Golfsumarið heldur áfram og enn geta kylfingar skráð sig í klúbba.