Gísli Sveinbergsson úr Keili lék frábært golf á öðrum keppnisdeginum á Orange Bowl Championship sem fram fer í Bandaríkjunum. Gísli lék á 67 höggum eða -4 og bætti hann sig um 6 högg frá fyrsta hringnum. Gísli fór upp um 24 sæti og er hann samtals á -2 í 6.-8. sæti á þessu gríðarlega sterka áhugamannamóti fyrir kylfinga 18 ára og yngri.
Giovanni Tadiotto frá Belgíu er efstur á -6 eftir 36 holur á Biltmore vellinum í Miami sem er par 71 og um 6.300 metra langur.
Gísli byrjaði ekki vel en hann var á +3 eftir fimm holur en hann hóf leik á 10. teig. Síðan tók við magnaður kafli. Gísli fékk þrjá fugla í röð á 17., 18., og 1. braut. Hann bætti við fuglum á 4., og 7., en hann fékk örn (-2) á 5. braut. Síðari 9 holurnar lék Gísli á 30 höggum eða -5.
Gísli er Íslandsmeistari í höggleik 17-18 ára, og A-landsliðsmaður en á Orange Bowl Championship keppa landsmeistarar 18 ára og yngri víðsvegar úr heiminum. Gísli sigraði eins og kunnugt er á Duke of York meistaramótinu í sumar en það mót er eitt það allra sterkasta í heiminum fyrir aldursflokkinn 18 ára og yngri. Orange Bowl meistaramótið er ekki ólíkt Duke of York meistaramótinu enda eru þar sterkustu kylfingarnir í flokki 18 ár og yngri.
Þetta er í 51. skipti sem mótið fer fram og það eru margir þekktir kylfingar sem hafa sigrað á þessu móti. Þar má nefna Tiger Woods, José María Olazábal, Andy North, Craig Stadler, Mark Calcavecchia og Bob Tway. Á meðal þeirra sem hafa tekið þátt á þessu móti má nefna Gary Koch, Willie Wood, Dudley Hart, Billy Mayfair, Ryuji Imada, Matt Kuchar, Camilo Villegas, Nick Price og Hal Sutton.
Frá árinu 1977 hefur verið keppt í kvennaflokki og á meðal sigurvegara eru Michelle McGann (tvívegis), Christie Kerr, Grace Park, Christina Kim og Julieta Granada. Helen Alfredson, Lisolette Neumann og Annika Sörenstam tóku einnig þátt á sínum tíma en náðu ekki að sigra.
Til marks um hve mótið er sterkt má nefna að helmingur keppenda í karlaflokknum eru með +2 eða lægra í forgjöf. Linnea Strom er með lægstu forgjöfina í kvennaflokknum eða +4,7.
heimild kylfingur.isá Orange Bowl