Illa gekk hjá kylfingunum Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur GR og Valdísi Þóru Jónsdóttur Leyni á þriðja degi lokaúrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í Marokkó í gær. Ólafía lék á 77 höggum eða fimm yfir pari og Valdís á 76 höggum en þær léku ekki sama völlinn. Var þetta versti hringur Ólafíu til þessa en Valdís hefur leikið alla þrjá á sama skorinu.
Ólafía fékk tvo skramba á hringnum, einn skolla en engan fugl. Hún lék hina tvo hringina á 73 og 74 höggum. Hún er í 76. – 88. sæti á samtals átta yfir pari og þremur höggum frá áætluðum niðurskurði sem verður eftir hringinn í dag. Valdís Þóra er á samtals tólf yfir pari og er í 102. – 107. sæti. Skorkort hennar var öllu skrautlegra en hjá Ólafíu. Valdís nældi í þrjá fugla en fékk einnig tvo skramba og þrjá skolla. Að loknum fimm hringjum komast þrjátíu efstu á Evrópumótaröðina, LET.