Þórður Rafn Gissurarson úr Golfklúbbi Reykjavíkur lenti í 23. sæti á fyrsta stigi úrtökumóta fyrir Evrópumótaröðina og tryggði sér þátttökurétt á öðru stigi í nóvember á Spáni.
Þórður lék á Frilford Heath vellinum sem er „gamaldags“ enskur skógarvöllur, þröngar brautir og litlar flatir. Þórður kunni ágætlega við sig í því umhverfi og skilaði flottum fjórum hringjum á -6 (72-72-67-71).
Þórður var í 23. sæti fyrir lokahringinn sem hann lék svo á einum undir pari og þurfti því að bíða eftir lokahollunum með nettan hnút í maganum um hvort honum tækist að vera meðal 24 efstu. Það gekk eftir og Þórður segist á Facebook síðu sinni vera ótrúlega sáttur með að hafa náð þessum árangri. „Síðustu holurnar tóku ótrúlega mikið á taugarnar. Næsta stig verður spilað á Spáni um miðjan nóvember. Mikil tilhlökkun og mikið æft þangað til,“ sagði Þórður.
www.kylfingur.is