/

Deildu:

Auglýsing

Stjórn Forskots kynnti í dag þá kylfinga sem styrktir eru af Forskoti, afrekssjóði kylfinga. Stofnendur sjóðsins eru Eimskip, Valitor, Íslandsbanki, Icelandair Group og Golfsamband Íslands.

Þessi fyrirtæki hafa stutt markvisst við golfíþróttina á liðnum árum, en sameinast við það verkefni í gegnum Forskot, afrekssjóðs kylfinga. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við þá kylfingasem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.

Markmið með stofnun Forskots var  að búa til reynslu og þekkingarbrunn sem skili sér til kylfinga framtíðarinnar og ungir kylfingar geti litið til í sínum framtíðaráætlunum. Þetta er þriðja sumarið sem Forskot styður við nokkra af okkar bestu kylfingum og gerir þeim kleyft að taka þátt í verkefnum erlendis.

Stofnaðilar sjóðsins leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að sterkar fyrirmyndir og það að eiga afreksmenn í íþróttum eru eina mikilvægustu þættirnir í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þá til dáða.

Einn fulltrúi frá hverjum stofnaðila er í stjórn sjóðsins og auk þess hefur stjórn sér til ráðgjafar fagteymi sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum.

Stífar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna og ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín.

 

STYRKÞEGAR FORSKOTS 2014

Birgir Leifur Hafþórsson Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

Birgir Leifur er okkar reyndasti kylfingur og hefur komist lengst allra kylfinga hér á landi. Birgir Leifur er núverandi Íslandsmeistari og jafnaði í ár met þeirra Björgvins Þorsteinssonar og Úlfars Jónssonar þegar hann varð Íslandsmeistari í sjötta sinn.

Birgir Leifur tók þátt í tveimur mótum á Nordic túrnum í vor og varð í 9. sæti á Jyske Bank mótinu í Danmörku í maí.

Birgir Leifur mun taka þátt í úrtökumóti fyrir Evrópsku mótaröðina í september og stefnir að sjálfsögðu að því að komast áfram á annað og þriðja stigið á Spáni í nóvember.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Golfklúbbi Reykjavíkur

Ólafía Þórunn er núverandi Íslandsmeistari, en hún vann þann titil í annað sinn á Leirdalsvelli í lok júlí.

Ólafía Þórunn hefur leikið fyrir Wake Forest University undanfarin ár, en hefur nú lokið námi við þann skóla og hefur sett stefnuna á atvinnumennsku.  Lokaverkefnið hennar með landsliði áhugamanna verður þátttaka á Heimsmeistaramóti kvenna í Japan í byrjun september, en að því verkefni loknu hefur hún sett stefnuna á úrtökumótin fyrir Evrópumótaröð kvenna sem haldinu eru síðar á þessu ári.

Ólafur Björn Loftsson Nesklúbbnum

Ólafur Björn hefur á þessu ári reynt fyrir sér á OGA og NGA mótaröðunum í Bandaríkjunum. Þá tók Ólafur Björn þátt í úrtökumótunum fyrir Kanadísku mótaröðina og S-Ameríku mótaröðina í vor. Var hann ekki langt frá því að komast áfram í þeim mótum.

Ólafur hefur sett stefnuna á úrtökumótin fyrir Nordic túrinn í haust og jafnframt tekur hann þátt í úrtökmóti fyrir Evrópumótaröðina í Frakklandi í september.

Valdís Þóra Jónsdóttir Golfklúbbnum Leyni

Valdís Þóra tók þátt í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð kvenna s.l. vetur og var nálægt því að komast í gegn. Árangur hennar á því móti tryggði henni rétt til þáttöku á LET Acess mótaröðinni og hefur hún leikið á henni í vor og í sumar.

Valdís Þóra varð í 3. sæti á Íslandsmótinu í ár og hefur sett stefnuna á að komast í gegnum úrtökumótin fyrir Evrópumótaröð kvenna nú í haust.

Axel Bóasson Golfklúbbnum Keili

Axel hefur stundað nám og æft golf með Missisippi State University undanfarin ár og lauk námi þar í vor. Axel hefur staðið sig vel í háskólagolfinu s.l. vetur og hefur nú sett stefnuna á úrtökumót fyrir Evrópsku mótaröðina.

Axel ætlar að æfa og keppa í Danmörku á næsta tímabili og mun því jafnframt taka þátt í úrtökumótum fyrir Nordic túrinn nú í haust.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ