Íslandsmótið í golfi fer fram á Jaðarsvelli dagana 21.-24. júlí. Skráningafrestur fyrir rennur út á miðnætti föstudaginn 15. júlí en skráning fer fram á golf.is. Það eru 16 ár frá því að Íslandsmótið fór síðast fram á Jaðarsvelli en árið 2000 fögnuðu kylfingar úr Keili sigri í karla – og kvennaflokki. Björgvin Sigurbergsson varð Íslandsmeistari í þriðja sinn á ferlinum og Kristín Elsa Erlendsdóttir fagnaði sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli.
Kylfingar úr Golfklúbbi Akureyrar voru nánast öruggir með sigur á Íslandsmótinu í golfi þegar það fór fram á þeirra heimavelli á árum áður.
Í fyrstu tíu skiptin sem Íslandsmótið fór fram á Akureyri þá fagnaði kylfingur úr GA Íslandsmeistaratitlinum. Magnús Guðmundsson úr GA er sá sem hefur oftast sigrað þegar mótið hefur farið fram á Akureyri, eða þrívegis, en Magnús á alls fimm Íslandsmeistaratitla og er hann næstsigursælasti kylfingur allra tíma á Íslandsmótinu.
Björgvin Þorsteinsson sigraði tvívegis á Akureyri en hann deilir metinu hvað varðar flesta Íslandsmeistaratitla. Björgvin hefur sex sinnum fagnað Íslandsmeistaratitlinum líkt og Úlfar Jónsson og Birgir Leifur Hafþórsson.
Hannes Eyvindsson rauf einokun GA-manna þegar Íslandsmótið fór fram á Jaðarsvelli árið 1979. Sigurpáll Geir Sveinsson bætti ellefta Íslandsmeistaratitlinum í safnið hjá GA árið 1994 þegar mótið fór fram á Jaðarsvelli. Frá þeim tíma hefur kylfingur úr GA ekki landað titlinum á Akureyri. GA er með 11 titla á Akureyri, GK er með 3 titla og GR með 2 titla.
Karen sú eina sem hefur sigrað oftar en einu sinni
Það er áhugavert að rýna í tölfræðina í kvennaflokknum þegar Íslandsmótið í golfi er haldið á Akureyri.
Guðfinna Sigurþórsdóttir, úr Golfklúbbi Suðurnesja, fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli á ferlinum þegar keppt var í fyrsta sinn í kvennnaflokki árið 1971. GS og GK eiga flesta Íslandsmeistaratitla frá Akureyri í kvennaflokki eða alls þrjá. Svo skemmtilega vill til að dóttir Guðfinnu, Karen Sævarsdóttir, er sú sem á flesta Íslandsmeistaratitla frá Akureyri í kvennaflokki en hún sigraði tvívegis á Íslandsmótinu. Karen er sú sigursælasta frá upphafi á Íslandsmótinu með átta titla í röð – met sem verður seint slegið.
Íslandsmeistarar í karlaflokki þegar mótið hefur farið fram á Akureyri:
1946: Sigtryggur Júlíusson, GA
1949: Jón Egilsson, GA
1952: Birgir Sigurðsson, GA
1955: Hermann Ingimarsson, GA
1958: Magnús Guðmundsson, GA
1961: Gunnar Sólnes, GA
1963: Magnús Guðmundsson, GA
1966: Magnús Guðmundsson, GA
1971: Björgvin Þorsteinsson, GA
1975: Björgvin Þorsteinsson, GA
1979: Hannes Eyvindsson, GR
1985: Sigurður Pétursson, GR
1987: Úlfar Jónsson, GK
1990: Úlfar Jónsson, GK
1994: Sigurpáll G. Sveinsson, GA
2000: Björgvin Sigurbergsson, GK
Íslandsmeistarar í kvennaflokki þegar mótið hefur farið fram á Akureyri:
1971: Guðfinna Sigurþórsdóttir, GS
1975: Kristín Pálsdóttir, GK
1979: Jóhanna Ingólfsdóttir, GR
1985: Ragnhildur Sigurðardóttir, GR
1987: Þórdís Geirsdóttir, GK
1990: Karen Sævarsdóttir, GS
1994: Karen Sævarsdóttir, GS
2000: Kristín E. Erlendsdóttir, GK