SÍ og UMFÍ standa saman að ráðstefnunni „Sýnum karakter“ í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. október. Ráðstefnan markar upphaf að sameiginlegu verkefni og vefsíðu með sama heiti sem ætluð er þjálfurum og íþróttafélögum. Vefsíðan Sýnum karakter verður opnuð á ráðstefnunni.
Dagskráin í heild sinni.
Skráning á viðburðinn er hér.
Á ráðstefnunni mun íþróttafólk og þjálfarar halda erindi um ýmsar hliðar þjálfunar og ræða málið í pallborði. Ráðstefnugestir geta tekið þátt í umræðunum.
Þátttakendur á ráðstefnunni eru m.a.:
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu
Margrét Lára Viðarsdóttir, íþróttafræðingur, B.S. í sálfræði og landsliðskona í knattspyrnu
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda og félagsmálafræðum við HÍ
Íris Mist Magnúsdóttir, íþróttafræðingur og landsliðsþjálfari í hópfimleikum.
Verkefnið Sýnum karakter er hugsað sem verkfæri fyrir þjálfara til að hlúa að og efla andlega og félagslega þætti hjá börnum og unglingum. Mikilvægi þjálfarans er sett í fókus og einblínt með nýstárlegum hætti á þann jákvæða ávinning sem hlýst af íþróttaiðkun umfram líkamlega, s.s. áhugahvöt, félagsfærni, sjálfstraust, einbeitingu, leiðtogahæfni og markmiðasetningu.
Á vefsíðu Sýnum karakter verða greinar og viðtöl við þjálfara og afreksíþróttafólk þar sem helsta umfjöllunarefni er efling andlegra og félagslegra þátta í gegnum þjálfun.
Verkefnið Sýnum karakter byggir á Framtíðinni, leiðarvísi í þjálfun barna og ungmenna sem dr. Viðar Halldórsson hefur þróað í mörg ár með það fyrir augum að finna styrkleika íþróttafólks. Viðar er lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins á sviði íþrótta. Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, lektor og sviðsstjóri á íþróttasviði Háskólans í Reykjavík, og dr. Viðar Halldórsson eru höfundar að efninu í verkefninu Sýnum karakter.
„Árangur í íþróttum snýst ekki aðeins um líkamlega getu. Hann snýst líka um það að leikmenn þurfa að hafa gott hugarfar og vera góðir liðsmenn. Með markvissri þjálfun karaktera í börnum og ungmennum þá styrkjum við þau fyrir lífið, þátttöku í samfélaginu og aukum líka möguleika þeirra inni á íþróttavellinum,“ segir Viðar Halldórsson. Viðar segir mikla áherslu hafa verið lagða í þjálfun á líkamlegri færni og tækni og jafnvel sé búið að festa það í námskrám íþróttafélaga hvað eigi að læra og á hvaða ári. Þjálfun í hugarfari og félagsfærni sé hins vegar mjög tilviljanakennd. „Það er vel hægt að þjálfa og styrkja leiðtogafærni eins og stökkkraft. Ef við gerum það með markvissum hætti þá náum við meiri árangri. Með þessu er íþróttahreyfingin bæði að sinna uppeldisþáttum starfsins og afreksþáttum starfsins,“ segir Viðar.
Nánari upplýsingar:
Sabína Steinunn Halldórsdóttir, verkefnastjóri UMFÍ, sabina@umfi.is, 898-2279.
Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, ragnhildur@isi.is, 863-4767.