Enn eitt golfsumarið hefur runnið sitt skeið á enda. Veðrið lék við okkur í sumar og kylfingar voru mjög duglegir að nýta golfvellina. Mótahald var einnig mjög blómlegt og má t.d. nefna að á tímabilinu 1. maí til 30. september voru 1.457 mót skráð í mótakerfi golf.is. Af þeim má ætla að ríflega 800 hafi verið opin mót.
Samkvæmt móta- og keppendareglum GSÍ skal golfklúbbur skipa dómara fyrir hvert opið mót og á dómarinn að vera til staðar á meðan mótið fer fram. Við vitum að þessu ákvæði er mis vel framfylgt. Í sumum klúbbum er það metnaðarmál mótanefnda og forráðamanna að standa vel að dómgæslunni, jafnt og annarri framkvæmd mótanna. Starf dómaranna felst í fleiru en eiginlegri dómgæslu úti á velli, þeir eiga t.d. einnig að tryggja að merkingar vallanna séu í lagi, staðarreglur séu skýrar og í samræmi við golfreglur og að í keppnisskilmálum komi fram öll atriði sem þar þurfa að vera. Góður undirbúningur og skýr ákvæði um framkvæmd mótanna kemur í veg fyrir ýmsar uppákomur og leiðindi sem annars geta orðið.
Helsta ástæða þess að dómarar eru ekki tilnefndir í opnum mótum er einfaldlega skortur á dómurum.
[pull_quote_right]Helsta ástæða þess að dómarar eru ekki tilnefndir í opnum mótum er einfaldlega skortur á dómurum. [/pull_quote_right]
Dómaranefnd GSÍ hefur mörg undanfarin ár staðið fyrir námskeiðum fyrir verðandi héraðsdómara og þannig reynt að sinna skyldum sínum varðandi fjölgun og símenntun dómara. Síðustu ár hefur héraðsdómaranámskeiðið verið haldið í vetrarlok, rétt áður en golfvertíðin hefst. Námskeiðið er haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og samanstendur af fjórum kvöldfyrirlestrum, auk prófs. Þeir sem eiga þess ekki kost að mæta á fyrirlestrana í Laugardalnum geta horft á þá í beinni netútsendingu.
Í framhaldi af ábendingum frá nokkrum golfklúbbum hefur dómaranefndin ákveðið að næsta héraðsdómaranámskeið verði haldið fyrr en venjulega, þ.e. í febrúar í stað mars-apríl. Vonumst við til að þessi tímasetning geri mörgum auðveldara um vik að sækja námskeiðið, enda hefur það á stundum rekist á við golfferðir og fleira.
Dagsetningar næsta héraðsdómaranámskeiðs verða því:
Fyrirlestrar: 7., 9., 13. og 15. febrúar 2017, kl. 19:30 – 22:00
Próf: 18. og 23. febrúar 2017 (þátttakendur velja annan hvorn daginn)
[pull_quote_right]Fyrirlestrar: 7., 9., 13. og 15. febrúar 2017[/pull_quote_right]
Eins og fyrr segir er hægt að fylgjast með fyrirlestrunum í beinni netútsendingu hafi menn ekki tök á að mæta í Laugardalinn.
Námskeiðin verða auglýst þegar nær dregur. Dómaranefndin vill hvetja forráðamenn golfklúbba til ræða við þá félaga sem þeir telja að gætu haft áhuga á að starfa fyrir klúbbinn á sviði mótahalds og dómgæslu og hvetja þá til að afla sér dómararéttinda. Einnig getur verið mjög praktískt að meðlimir mótanefnda klúbbanna sæki héraðsdómaranámskeiðið. Oft á tíðum sjá mótanefndarmenn um framkvæmd golfmóta og eru þá hvort eð er á staðnum þegar mót eru haldin. Því fleiri dómarar sem klúbbarnir hafa á að skipa, því betra. Fyrir utan að störfin dreifast þá á fleiri hendur er alltaf skemmtilegra fyrir dómara að hafa fleiri dómara í klúbbnum til að ræða álitamál sem koma upp o.s.frv.
[pull_quote_center]Því fleiri dómarar sem klúbbarnir hafa á að skipa, því betra.[/pull_quote_center]
Með golfkveðju, dómaranefnd GSÍ.