Frétt af heimasíðu Golfklúbbs Mosfellsbæjar:
Gengið hefur verið frá ráðningu Davíðs Gunnlaugssonar í stöðu Íþróttastjóra GM frá og með 1. nóvember næstkomandi. Davíð sem er uppalinn Mosfellingur og PGA kennari er félagsmönnum að góðu kunnur en hann hefur starfað hjá klúbbnum í hinum ýmsu störfum undanfarin ár.
Davíð útskrifaðist úr PGA kennaranámi árið 2015 og fékk við útskrift verðlaun fyrir besta einkakennsluprófið og ennfremur fyrir bestan námsárangur.
[pull_quote_right]Davíð mun sinna stöðu Íþróttastjóra í hlutastarfi en ásamt því mun Davíð koma að þjálfun afrekshópa GM. [/pull_quote_right]
Davíð mun sinna stöðu Íþróttastjóra í hlutastarfi en ásamt því mun Davíð koma að þjálfun afrekshópa GM. Davíð mun á næstu vikum leiða vinnu sem hafist hefur við að endurmóta afreksstefnu og kennslumál Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Markmið klúbbsins er að vera í fremstu röð golfklúbba á Íslandi og viðhalda þeim góða árangri sem afrekskylfingar klúbbsins hafa náð á undanförnum árum.
Á næstu dögum og vikum verða kynntir aðrir þjálfarar til að starfa við hlið Davíðs og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem mun nú halda áfram hjá GM undir handleiðslu Davíðs.
Boðað verður til fundar með foreldrum og iðkendum áður en æfingar hefjast í nóvember þar sem fyrirkomulag æfinga verður kynnt og farið yfir þær áherslur sem Davíð mun innleiða.