Heimsóknum erlendra kylfinga á golfvelli landsins hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Í áhugaverðri grein sem birt er á vef IAGTO sem eru alþjóðleg samtök aðila í golfferðaþjónustu er Íslandi lýst sem sjóðheitum golfáfangastað fyrir kylfinga.
Á árinu 2016 léku um 4000 erlendir kylfingar golf á íslenskum völlum. Helmingur þeirra sem hingað komu léku einn hring á Íslandi en 27% þeirra léku fimm eða fleiri golfhringi. Um 50% aukning var á heimsóknum erlendra kylfinga á árinu 2016 miðað við árið 2015.
Magnús Oddsson, framkvæmdastjóri Golf Iceland, segir í vitðali í greininni að Ísland skeri sig úr hvað aðgengi að golfvöllum landsins. „Við erum með mjög marga golfvelli á Íslandi og aðgengi að þeim er gott. Yfir hásumarið er hægt að leika á þeim í 24 tíma á hverjum degi og hvergi í Evrópu eru fleiri golfvellir á hvern íbúa,“ segir Magnús m.a. í viðtalinu.
Peter Walton framkvæmdastjóri IAGTO segir að það sé allt sérstakt við þá upplifun að leika golf á Íslandi. „Það eru margir golfvellir á Íslandi í mjög háum gæðaflokki og sem ættu að höfða til þeirra sem eru að leita að slíkri upplifun. Það er ekki oft sem maður upplifir að leika golf í aðstæðum þar sem að hraun og gamlir gosgígar umlykja golfvöllinn – og af þeim sökum lifir minninginn um golf á Íslandi lengur hjá flestum,“ segir Walton m.a. Í viðtalinu sem má lesa í heild sinni hér.