Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 73 höggum eða +2 á fjórða hringnum á Estrella Damm mótinu á LET Evrópumótaröðinni. Hún lauk því keppni á +2 samtals (68-71-73-73) og er Valdís í 52. sæti þegar þetta er skrifað en keppni er ekki lokið. Valdís lék aðra braut vallarins í dag á +3 en hún fékk þrjá fugla og tvo skolla á næstu 16 holum.þ
Valdís Þóra, sem er úr Golfklúbbnum Leyni, lék á 68 höggum eða -3 á fyrsta hringnum og 72 höggum á öðrum hringnum (68-72-73). Þetta er þriðja mótið í röð hjá Valdísi þar sem hún kemst í gegnum niðurskurðinn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Mótið fer fram á Terramar vellinum á Spáni. Þetta er þriðja mótið sem Valdís Þóra tekur þátt á LET Evrópumótaröðinni en hún hefur endað í 51. og 50. sæti á fyrstu tveimur mótunum og komist í gegnum niðurskurðinn á þeim báðum.
Valdís er í ráshóp með Silvia Banon frá Spáni og Madelene Stavnar frá Noregi fyrstu tvo keppnisdagana. Þær hófu leik kl. 11:30 á fimmtudaginn á 1. teig og á föstudaginn hefja þeir leik 7:15 á 10. teig.
Nánari upplýsingar um mótið eru hér:
Valdís, sem er að leika á sínu fyrsta keppnistímabili á LET Evrópumótaröðinni, er í 64. sæti á stigalistanum á LET Evrópumótaröðinni. Til þess að halda keppnisréttinum á LET þarf Valdís Þóra að vera í hópi 80 efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins.
Það gæti einnig dugað að vera rétt fyrir ofan sæti nr. 80 þar sem að margir leikmenn ná ekki að uppfylla lágmarksfjölda móta á LET á keppnistímabilinu. Lágmarkið er 6 mót og margir keppendur sem eru að leika á LPGA ná ekki að uppfylla þann kvóta og telja því ekki inn á stigalista LET þegar allt er tekið saman í lok keppnistímabilsins.
Valdís Þóra er þriðja íslenska konan sem nær því að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Ólöf María Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafa báðar leikið á þessari mótaröð.
Til samanburðar þá lék Ólafía Þórunn á sjö mótum á síðasta ári á LET Evrópumótaröðinni. Hún endaði í 96. sæti á stigalistanum og vann sér inn rétt um 1,4 milljón kr. í verðlaunafé á þeim mótum. Ólafía Þórunn náði ekki að tryggja keppnisréttinn á LET. Hún gerði hinsvegar betur með því að tryggja sér keppnisrétt á LPGA mótaröðinni seint á síðasta ári.