Auglýsing

Í vetur hefur risið við Hlíðavöll í Mosfellsbæ glæsileg ný aðstaða Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Stefnt er á að opna efri hæð hússins í maí næstkomandi og mun þá öll aðstaða GM til þess að taka á móti félagsmönnum og gestum breytast gríðarlega mikið. Í húsinu verður að finna aðstöðu til iðkunar golfs og rekstur golfmóta á Hlíðavelli ásamt skrifstofum og aðstöðu starfsmanna GM.

Íþróttamiðstöð á neðri hæð hússins

Á neðri hæð hússins mun GM síðan opna Íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Þar mun GM koma sér upp í næstu skrefum glæsilegri aðstöðu til iðkunar og æfinga golfs innandyra. Þar verður að finna alla aðstöðu sem börn, unglingar og afrekskylfingar GM þurfa til að stunda æfingar á sinni íþrótt.

Ennfremur mun almennur félagsmaður í GM geta nýtt sér aðstöðuna til æfinga yfir vetrartímann. Þó golftímabilið sé alltaf langt á Hlíðavelli, en opið var á sumarflatir árið 2016 í heila 7 mánuði, þá er ljóst að með þessari aðstöðu mun það í raun aldrei taka enda.

Ert þú með rétta nafnið?

Nú leitum við að nafni á þetta glæsilega hús. Lumar þú á glæsilegu nafni sem fangar þetta fallega hús og það frábæra útsýni sem tekur á mótið gestum og gangandi? Í verðlaun fyrir bestu tillöguna er félagsgjald í Golfklúbbi Mosfellsbæjar sumarið 2017 eða sumarpassi á golfbíl hjá klúbbnum sé sigurvegarinn núverandi félagsmaður GM.

Dómnefnd velur besta nafnið

Skipuð hefur verið dómnefnd sem mun skila tillögu um nafn á húsinu til stjórnar GM. Dómnefndina skipa þau Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, Gunnar Ingi Björnsson framkvæmdastjóri GM, Jóhanna Hreinsdóttir félagsmaður í GM, Georg Tryggvason heiðursfélagi GM og Valgeir Magnússon félagsmaður í GM, einnig þekktur sem markaðsmaðurinn Valli Sport, en hann er einnig formaður nefndarinnar.

Skilafrestur á tillögum er til 12:00 föstudaginn 5. maí 2017 og skal senda tillögur á golfmos@golfmos.is.

Heimilt er að skila stuttri greinargerð með hverri tillögu en það er þó ekki nauðsynlegt.

Skilyrði er að innsendar tillögur falli að íslenskum málvenjum og nafnahefðum.

Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum innsendum tillögum ef hún telur það nauðsynlegt.

Taktu þátt í að velja nýtt nafn á nýtt hús GM sem markar tímamót í starfsemi Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ