Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) náði stórkostlegum árangri á Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki. Guðrún Brá lék samtals á -5 á fjórum hringjum á mótinu sem fram fór í Sviss. Á lokahringnu lék Guðrún Brá á 69 höggum eða -3 en hún fékk alls sex fugla á hringnum og þar af fjóra fugla á síðari 9 holunum.
Árangur Guðrúnar er einn sá besti sem íslenskur kylfingur hefur náð á þessu móti þar sem sterkustu áhugakylfingar Evrópu taka þátt.
Agathe Laisne frá Frakklandi varð Evrópumeistari á -8 en þar á eftir komu tveir kylfingar frá Sviss, Albane Valenzuela á -7 samtals og Morgane Metraux á -6 samtals.
Saga Traustadóttir úr GR og Ragnhildur Kristinsdóttir náðu ekki að komast í gegnum niðurskurðinn.
Allir bestu áhugakylfingar Evrópu taka þátt á þessu móti. Skorið er uppfært hér:
Alls eru leiknir 4 hringir á fjórum keppnisdögum og eru 144 keppendur sem taka þátt. Mótið fer fram í Sviss rétt norðan við borgina Lausanne en keppnisvöllurinn er í 850 metra hæð.