Axel Bóasson úr Keili náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni í golfi. Mótið fór fram á Himmerland vellinum í Danmörku.
Íslandsmeistarinn í golfi 2017 náði sér ekki á strik á fyrsta hringnum en hann lék á 77 höggum eða +6. Hann bætti sig verulega á öðrum hringnum og lék á 72 höggum og var samtals á +7 í 134. sæti.
Axel bætist þar með í hóp fárra íslenskra kylfinga sem hafa leikið á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Alls hafa átta kylfingar frá Íslandi leikið á Evrópumótaröðinni í golfi.
Í karlaflokki hafa Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, Heiðar Davíð Bragason, GHD og Björgvin Sigurbergsson úr GK og Guðmundur Ágúst Kristjánsson leikið á þessari mótaröð. Björgvin fékk boð um að leika á móti í Malasíu á sínum tíma og Heiðar Davíð fékk boð um að leika á Opna spænska meistaramótinu eftir sigur á sterkasta áhugamannamóti Spánar á sínum tíma. Guðmundur Ágúst tryggði sér fyrr í sumar keppnisrétt á einu móti í Svíþjóð með frábærum árangri á úrtökumóti. Birgir Leifur er eini karlkylfingurinn frá Íslandi sem hefur öðlast keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.
Þrjár íslenskar konur hafa öðlast keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir, GK var fyrsti íslenski kylfingurinn sem náði því. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GKG var önnur í röðinni og Valdís Þóra Jónsdóttir GL er þessa stundina með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.