Sigurður Már Þórhallsson úr GR og Amanda Guðrún Bjarnadóttir úr GHD hafa lokið keppni á Duke of York mótinu sem fram fer á Royal Liverpool vellinum á Englandi. Sigurður Már endaði í 34. sæti og Amanda Guðrún í 45. sæti.
Mótið er fyrir kylfinga á aldrinum 17-18 ára og bestu áhugakylfingar heims af báðum kynjum mæta þarna til leiks. Íslendingar hafa átt góðu gengi að fagna á þessu móti. Þrívegis hefur íslenskur kylfingur sigrað á þessu móti, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Ragnar Már Garðarsson og Gísli Sveinbergsson sigruðu 2010, 2012 og 2014.
Mótið er 54 holur og keppt í höggleik án forgjafar. Sigurður Már og Amanda Guðrún eru fulltrúar Íslands þar sem þau fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni í sínum aldursflokki í Grindavík í sumar. Duke of York er eina unglingamótið í heiminum sem fer fram eingöngu á strandvöllum.
Margir þekktir kylfingar hafa tekið þátt á þessu móti og má þar nefna; Rory McIlroy, Matteo Manassero, Pablo Martin og Anna Nordqvist.
Prins Andrew eða Andrew Albert Christian Edward er sá sem hefur drifið þetta mót áfram enda er það kennt við hann.