Golfklúbburinn Oddur í Garðabæ hefur hlotið hina alþjóðlegu GEO Certified® vottun. Vottunin er afrakstur rúmlega tveggja ára vinnu sem hefur tekið á flestum þáttum starfseminnar, en GEO Foundation er óháður vottunaraðili fyrir golfvallarsvæði og staðfestir vottunin að Golfklúbburinn Oddur starfar með umhverfi sínu á sjálfbæran hátt. Þeir þættir sem vottunin tekur sérstaklega til eru náttúran, auðlindanotkun og samfélagið sem við störfum í.
Það er alveg ljóst að vottunin er ekki endapunktur, heldur er hún miklu frekar upphafið að frekari starfi og endurbótum í starfsemi golfklúbbsins. Í skýrslu vottunaraðilans eru lagðar til ýmsar leiðir og aðgerðir til að bæta enn frekar umhverfið hér í Urriðavatnsdölum og að því verður unnið á næstu árum. Einnig er ljóst að vottunin mun styðja við frekari uppbyggingu golfvallarsvæðisins, bæði til golfiðkunar og almennrar útivistar.
Golfklúbburinn Oddur er þar með orðinn hluti af ört stækkandi samfélagi golfvallarsvæða sem vinna samkvæmt forskrift GEO að bættu umhverfi. Í þeim hópi eru meðal annars þekkt golfvallarsvæði eins og St. Andrews Links, Gleneagles og Carnoustie.
GEO Certified® vottun Golfklúbbsins Odds rímar vel við vistvottun BREEAM sem rammaskipulag Urriðaholts fékk árið 2015 og ýmis deiliskipulagssvæði innan þess í framhaldinu. Má því segja að allt svæðið frá Reykjanesbraut í norðri að línustæði Hnoðraholtslínu í suðri sé nú umhverfis- og vistvottað af alþjóðlegum vottunaraðilum.