Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, lék á 72 höggum eða pari á lokakeppnisdeginum á PGA meistaramótinu í Ástralíu.
Sjöfaldi Íslandsmeistarinn lék hringina fjóra á samtals á +3 eftir að hafa leikið fyrstu þrjá hringina á (74-69-76). Birgir endaði í 62. sæti af alls 75 keppendum sem komust í gegnum niðurskurðinn.
Fyrir árangurinn fékk Birgir um 3000 Evrur eða um 400 þúsundu kr. Siguvegarinn fékkum 60.000 Evrur eða 7,6 milljónir kr. Næsta mót hjá Birgi á mótaröð þeirra bestu í Evrópu er í Suður-Afríku, Joburg mótið, sem hefst 7. desember.
Cameron Smith og Jordan Zunic frá Ástralíu léku í bráðabana um sigurinn en þeir léku báðir á -18 samtals. Smith hafði betur á 2. holu í bráðabananum.
Stóru nöfnin á þessu móti eru m.a Sergio Garcia frá Spáni og Adam Scott frá Ástralíu. Garcia er á -8 samtals en Adam Scott komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
2. keppnisdagur.
Á öðrum keppnisdegi hóf Birgir Leifur leik á 10. teig. Það var nokkuð ljóst að hann þurfti að leika á -3 eða betur til þess að komast í gegnum niðurskurðinn.Og Birgir gerði það sem til þurfti og tryggði sér áframhaldandi þátttöku með fugli á lokaholunni.
Eins og áður segir hóf Birgir Leifur leik á 10. teig. Hann fékk fimm pör í röð og fugl á 15. Á ný komu fimm pör í röð áður en hann bætti við öðrum fugli dagsins á 3. braut. Hann fékk aftur fimm pör í röð áður en hann tryggði sig áfram með fugli á lokaholunni.
Marc Leishman frá Ástralíu er efstur á -12 samtals og Adam Bland landi hans deilir því sæti.
Tveir ástralskir kylfingar voru efstir á -6 eftir fyrsta hringinn en Sergio Garcia frá Spáni kom þar næstur á -5 höggum undir pari. Adam Scott var á -1 eftir fyrsta hringinn.
Birgir Leifur fékk fugl á 2. holu og var það eini fuglinn á hringnum. Hann fékk þrjá skolla og endaði á 74 höggum eins og áður segir.
Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og fer það fram dagana 30. nóvember – 3. desember og er leikið á Royal Pines vellinum. Mótið er sameiginlegt verkefni hjá Evrópumótaröðinni og PGA atvinnumótaraðarinnar í Ástralíu. PGA meistaramótið í Ástralíu á sér langa sögu sem nær allt aftur til ársins 1905 þegar fyrst var keppt um titilinn.
Á meðal keppenda eru margir af bestu kylfingum heims og má þar nefna Adam Scott frá Ástralíu og Sergio Garcia frá Spáni.
Birgir Leifur gerir ráð fyrir að komst inn á 10-15 mót á Evrópumótaröðinni samhliða því að vera með keppnisrétt á öllum mótum næsta tímabils á Áskorendamótaröðinni. Sigur hans á Áskorendamót í ágúst á þessu ári styrkir stöðu hans varðandi þátttöku á Evrópumótaröðinni sem er sú sterkasta í Evrópu.
Birgir Leifur lék síðast á Evrópumótaröðinni árið 2011 en þá fékk hann tækifæri á einu móti. Alls hefur hann leikið á 60 mótum á Evrópumótaröðinni. Hann var með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni 2007-2009 og á þeim tíma lék hann á samtals 43 mótum á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.
Birgir Leifur fer frá Ástralíu yfir til Suður-Afríku þar sem hann keppir á Joburg mótinu á Evrópumótaröðinni dagana 7.-10. desember. Svo gæti farið að Birgir Leifur keppi á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni í röð í Suður-Afríku BMW mótið fer þar fram 11.-14. janúar 2018.
Eins og áður segir er ljóst að keppnisdagskrá Birgis Leifs verður þétt á árinu 2018 og nóg af mótum sem standa honum til boða. Það sem er ljóst að hann getur líklega leikið á 10-15 mótum á Evrópumótaröðinni og á Áskorendamótaröðinni getur hann valið þau mót sem henta hverju sinni.