Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur var í gær kjörin nýliði ársins í Ohio Valley Conference í bandaríska háskólagolfinu.
Ragnhildur eða Ragga eins og Bandaríkjamennirnir kalla hana leikur fyrir Eastern Kentucky háskólann.
Þetta er í annað sinn sem Eastern Kentucky á leikmann sem fær þessa nafnbót. Amanda Lindahl var einnig nýliði ársins árið 2016.
Á þessu tímabili náði Ragnhildur þrívegis að vera á meðal fimm efstu á þeim níu mótum sem hún lék á. Hún sigraði á einu þeirra, Pinehurst Intercollegiate, sem fram fór í mars.
Á þessu tímabili er Raghildur í 15. sæti yfir lægsta meðalskorið en hún hefur leikið á 77,8 höggum að meðaltali.