Svör við nokkrum algengum spurningum um golfreglurnar. Þessi grein birtist fyrst í tímaritinu Golf á Íslandi.
Það berst oft sandur inn á flötina úr glompum og oft er mikið af sandi í púttlínunni. Geta kylfingar burstað sandinn úr púttlínunni, óháð því hvort boltinn er á flötinni eða rétt fyrir utan flötina?
Þeir mega bursta sandinn sem er á flötinni en ekki sand sem er utan flatarinnar. Þetta má lesa úr reglu 23-1 og skilgreiningu á lausung. Regla 23-1 segir: „Fjarlægja má sérhverja lausung, vítalaust, nema þegar bæði lausungin og boltinn liggja í eða snerta sömu torfæruna.“ Er sandur þá lausung? Svarið við því er í skilgreiningunni á lausung sem segir m.a.: „Sandur og laus jarðvegur eru lausung á flötinni, en ekki annars staðar.“
Ég hef oft séð kylfinga ýta og jafnvel þrýsta kylfuhausnum niður í grasið fyrir aftan boltann. Dældin sem myndast við þetta gerir það að verkum að boltinn er nánast „tíaður“ upp á brautinni eða í karganum. Má gera slíkt ef boltinn hreyfist ekki?
Nei. Almenna reglan er sú að við eigum að leika boltanum þar sem hann liggur og megum ekki bæta t.d. legu boltans. Á hinn bóginn þurfum við að koma kylfuhausnum að boltanum til að geta slegið hann og því er í lagi þótt grasið dældist aðeins við að leggja kylfuhausinn aftan við boltann. Regla 13-2 segir m.a. að við megum ekki bæta legu boltans með því að „þrýsta kylfu á jörðina“ en segir jafnframt að það sé í lagi þótt lega verði betri ef það gerist við að „leggja kylfuhausinn létt niður þegar boltinn er miðaður“.
Hvað gerist ef ég pútta boltanum á flötinni, meðspilari minn gleymir að taka flaggið úr og boltinn fer ofan í holuna?
Það kostar þig tvö vítahögg í höggleik og holutap í holukeppni. Þótt meðkeppandinn gæti stangarinnar gerir hann það fyrir þína hönd og þú færð vítið. Sjá reglu 17-3.
Er í lagi að skipta um aðstoðarmann (kylfubera) í keppni – og ef svo er, hvað má ég skipta oft?
Já, þú mátt skipta eins oft um kylfubera og þig lystir. Helstu takmarkanirnar eru bara tvær. Annars vegar að þú mátt bara vera með einn kylfubera í senn, eins og tiltekið er í reglu 6-4. Hins vegar máttu ekki skipta í örstutta stund um kylfubera til þess eins að fá viðbótarráð frá nýja kylfuberanum. Þetta er útskýrt í úrskurði 8-1/26.
Á par 3 holu í golfmóti eru kylfingar að velta því fyrir sér hvaða kylfu þeir eigi að slá með. Má kíkja í „pokann“ hjá meðspilaranum og skoða hvaða kylfu hann valdi?
Já, það má orða þetta þannig að þú mátt „horfa en ekki káfa“. Regla 8-1 segir að þú megir ekki biðja neinn um ráð, t.d. um kylfuval. Þannig máttu ekki spyrja meðkeppandann um hvaða kylfu hann ætli að nota ef þú átt eftir að slá svipað högg og hann. Á hinn bóginn er útilokað að banna kylfingum að horfa á einhverja ákveðna hluti. Úrskurður 8-1/11 segir að þótt þú megir horfa ofan í golfpoka meðkeppandans megirðu ekki aðhafast neitt frekar til að sjá t.d. hvaða vantar í pokann, svo sem að opna pokann eða fjarlægja eitthvað sem hylur kylfurnar.
Ysta lagið á golfboltanum skemmist mikið eftir upphafshögg sem lendir á malbikuðum stíg. Má ég skipta ónýta boltanum út fyrir nýjan og þarf hann að vera af sömu gerð og sá fyrri?
Já, þú mátt skipta um bolta ef hann er „sýnilega skorinn, sprunginn eða aflagaður“ eins og segir í reglu 5-3. Samkvæmt því er ekki nóg að boltinn sé rispaður. Áður en þú skiptir um bolta þarftu að (a) merkja staðsetningu upphaflega boltans, (b) láta einhvern í ráshópnum vita að þú ætlir að lyfta upphaflega boltanum og (c) leyfa einhverjum í ráshópnum að fylgjast með þegar þú skoðar upphaflega boltann. Að öllu jöfnu þarf nýi boltinn ekki að vera af sömu gerð og sá fyrri. Það á aðeins við ef keppnisskilmálar ákveða að leikmenn þurfi að nota sömu boltategund alla umferðina. Slíkir keppnisskilmálar tíðkast ekki á Íslandi.