/

Deildu:

Auglýsing

– nýtt klúbbhús í samvinnu við Icelandair hótel Hamar

Í dag opnaði Golfklúbbur Borgarness nýtt klúbbhús eða golfskála í samvinnu við Icelandair hótel Hamar. Á hótelinu verður móttaka fyrir gesti Hamarsvallar og um miðjan júní verður tekin í notkun nýr veitingasalur sem er sérstaklega hannaður með kylfinga í huga.

Með þessari breytingu verður ný upphafshola á Hamarsvelli og 1. hola vallarins var áður sú 9. Nýr teigur sem er yfir 50 metra langur er við 1. braut vallarins – og grisja þurfti mikið af trjám í kringum teiginn. Þetta er vel heppnuð framkvæmd sem Borgnesingar geta verið stoltir af.  Lokaholan á Hamarsvelli er skemmtileg par 3 hola þar sem að flötin er alveg við Icelandair hótel Hamar – og væntanlegur veitingasalur verður með frábæru útsýni yfir 18. flötina. Þessar breytingar voru unnar í samvinnu við Edwin Roald golfvallahönnuð.

Hér er horft upp eftir 1. braut Hamarsvallar af nýjum glæsilegum teig sem er um 50 metra langur. Þessi braut var áður sú 9. á Hamarsvelli.



Útsýnið yfir Borgarfjörðinn er stórbrotið frá Icelandair hótel Hamar og veitingastaður hótelsins hefur getið sér gott orð fyrir að framreiða frábæran mat úr hráefni úr héraði. Hér er horft frá væntanlegum veitingastað sem mun nýtast kylfingum og gestum á Icelandair hótel Hamri.



Sigurður Ólafsson, eigandi Icelandair hótel Hamar, segir að þessi breyting sé kærkomin fyrir alla aðila.


„Þetta er breyting sem við hér á hótelinu höfum haft lengi í huga. Við höfum verið með veitingareksturinn í gamla klúbbhúsinu á undanförnum árum. Það var ljóst að það myndi ekki ganga upp áfram og þessi niðurstaða er afar ánægjuleg að mínu mati. Jóhannes Ármannsson framkvæmdastjóri tók vel í þessa hugmynd – og hann hafði sjálfur séð þetta fyrir sér með þessum hætti,“ segir Sigurður en hann keypti hótelið árið 2011 og er mjög virkur í félagsstarfi GB sem kylfingur og félagi.

„Þessir hlutir væru ekki að gerast ef Sigurður Ólafsson væri ekki svona áhugasamur um golfið. Hann hefur stutt ómetanlega við klúbbinn á undanförnum árum,“ segir Jóhannes Ármannsson framkvæmdastjóri GB.

Það fer vel um gesti í nýrri aðstöðu Golfklúbbs Borgarness á Icelandair hótel Hamar eins og sjá má á myndunum hér fyrir ofan.



Gamla klúbbhúsið fær nýtt hlutverk

Gamla klúbbhúsið við Hamarsvöll fær nýtt hlutverk eftir þessa breytingu. Starfsfólk Icelandair hótel Hamar mun áfram hafa gistiaðstöðu í húsinu eins og undanfarin ár.

„Barna – og unglingastarfið, og eldri borgarar, verða með aðstöðu í gamla klúbbhúsinu. Það er mikilvægt að þessir hópar fái aðstöðu sem stangast ekki á við daglegan rekstur á hótel Hamri. Til lengri tíma litið er ég ekki í vafa um að það verði lyftistöng fyrir félagsstarfið. Krakkarnir fá rými til að vera börn – og við þekkjum það að krakkar þurfa rými til að njóta sín. Þau fá það í gamla klúbbhúsinu,“ segir Jóhannes.

Íslandsmótið í Borgarnesi 2023?

Icelandair hótel Hamar opnar nýjar víddir í starfi GB hvað varðar mótahald og mótttöku hópa. Jóhannes leynir því ekki að til lengri tíma litið hafi GB það sem markmið að fá stærsta mót Íslands í Borgarnes.

„Það er langtímamarkmið Golfklúbbs Borgarness að fá að halda Íslandsmótið á Hamarsvelli. Hvenær það verður að veruleika er óvíst en það væri gaman að stefna á árið 2023 þegar GB á 50 ára afmæli. Til þess að fá slíkt mót þarf aðstaðan að vera til staðar fyrir keppendur og gesti. Ég tel að með þessari breytingu sé GB í fremstu röð á landsvísu þegar kemur að þessum þætti. Keppendur m.a. gætu gist við keppnisvöllinn á glæsilegu hóteli hér við Hamar.  Stemningin á slíku móti yrði einstök að mínu mati,“ segir Jóhannes.

„Við þurfum að gera ýmsar breytingar á Hamarsvelli til þess að fá Íslandsmótið hingað til okkar. Þetta er langtímaverkefni og við tökum þetta í litlum skrefum,“ bætir Jóhannes við.


Mikil tækifæri fyrir báða aðila

Sigurður bætir því við að daglegur rekstur á móttöku kylfinga henti vel fyrir starfssemi Icelandair hótels Hamars:

„Hópar sem koma hingað á hótelið – fara yfirleitt snemma að morgni og koma seint að kvöldi til baka. Það passar því vel í reksturinn að þjónusta kylfingana sem koma hingað yfir daginn þegar það er rólegt á hótelinu. Við erum með fyrsta flokks eldhús, fagfólk í matreiðslu og þjónustu, og kylfingarnir sem koma hingað geta því gengið að því vísu að fá toppþjónustu og upplifun sem þeir fá ekki á mörgum golfvöllum á Íslandi. Það er einnig mikið af Íslendingum sem leika golf að koma í heimsókn hingað. Samlegðaráhrifin eru mikil fyrir hótel Hamar. Hér eru 54 herbergi, tveir veitingasalir, annar fyrir allt að 100 manns, og þessi sem er í byggingu mun rúma 60 gesti. Ef við opnum síðan allt getum við búið til allt að 200 manna sal.“

Hér má sjá viðbygginguna sem mun hýsa veitingasalinn fyrir kylfinga. Myndin er tekin frá bílastæðinu við gamla klúbbhúsið.


„Við erum með góðan völl sem hefur fengið góða dóma hjá þeim sem hingað hafa komið. Með nýrri aðstöðu hér á Icelandair hótel Hamri opnast enn fleiri tækifæri fyrir okkur í Golfklúbbi Borgarness að taka á móti fyrirtækjamótum og hópum. Að mínu mati verða kylfingar sem hingað koma enn ánægðari eftir þessa breytingu. Upplifunin verður einstök, allt frá því að gestirnir koma, og ekki síður í glæsilegri veitingaaðstöðu við 18. flötina eftir hringinn. Hér geta allir átt góðan dag í flottri aðstöðu. Við getum núna komið sterkari inn á fyrirtækjamótamarkaðinn. Hér verða einnig leigusett, og markmiðið er að geta boðið t.d. upp á 9 holu pakka um kvöldið fyrir hótelgesti, miðnæturgolf, það mörg tækifæri fyrir okkur. Við horfum til framtíðar að fá enn fleiri erlenda kylfinga,“ segja þeir Jóhannes og Sigurður.

Hér má sjá viðbygginguna þar sem veitingasalurinn fyrir kylfinga verður á Icelandair hótel Hamri.



10 ára samningur

Jóhannes er ánægður með þann stuðning og velvilja sem GB hefur fengið við breytingarnar á vellinum og þeim framkvæmdum sem hafa staðið yfir að undanförnu.

Fyrirtæki og einstaklingar hafa komið að þessari framkvæmd við breytingarnar á vellinum. Fáum ekki styrk frá Borgarbyggð að þessu sinni. Við gerðum 10 ára samning við Icelandair hótel Hamar. Í samningnum er fimm ára uppsagnarákvæði, höfum tíma til að fara til baka ef þetta gengur ekki upp. Breytingarnar á vellinum eru einnig með þeim hætti að það verður ekkert mál að snúa til baka í fyrra horf. En ég hef enga trú á því að til þess þurfi að koma – framtíðin er björt að mínu mati og þessi breyting mun styrkja klúbbinn og Icelandair hótel Hamar,“ segir Jóhannes Ármannsson framkvæmdastjóra Golfklúbbs Borgarness.

Frá Hamarsvelli í Borgarnesi

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ