Auglýsing

– Kylfingurinn Kjartan Birgisson hjartaþegi leitar að liðsfélaga fyrir heimsleika líffæraþega.

„Ég lifi til að vera á lífi og golfíþróttin á stóran þátt í því að ég hef náð góðum bata,“ segir kylfingurinn Kjartan Birgisson sem er félagi í Golfklúbbnum á Flúðum. Kjartan, sem er 58 ára gamall, hefur frá árinu 2010 náð að taka golfíþróttina fastari tökum eftir að hafa glímt við erfið veikindi vegna hjartagalla. Viðtalið við Kjartan er í 5. tbl. Golf á Íslandi 2ö18 sem er á leiðinni til félagsmanna í golfklúbbum GSÍ á allra næstu dögum.

„Ég er hjartaþegi frá árinu 2010. Frá þeim tíma hef ég litið á það sem skyldu mína að fylgja því eftir og vekja athygli á líffæragjöfum. Aðgerðin sem ég fór í gekk vel, ég hef ekki þurft að fara inn á spítala frá þeim tíma. Ég er nokkuð gott dæmi um hvað er hægt að gera,“ bætir Kjartan við en hann vonast til þess að finna að liðsfélaga til að fara með á heimsleika líffæraþega á næsta ári í Newcastle á Englandi.

Meðfæddur hjartagalli setti svip sinn á líf Kjartans allt frá fæðingu. Aðalhjartalokan var vandamálið og hann fór í fjórar aðgerðir þar sem reynt var að laga ástandið. „Ég sá snemma að ég yrði ekki afburðamaður í íþróttum. Ég gat lítið hlaupið og þolið var lítið.“

Fór í hjartastopp 45 ára gamall

Árið 2005 var Kjartan hætt kominn þegar hann fór í hjartastopp þegar hann var á göngu úti á götu.

„Ég var aðeins 45 ára gamall en ég fékk sem betur annað tækifæri í lífinu og hjartað fór í gang. Það má segja að veikindasaga mín hafi byrjað á þessum tíma. Læknarnir settu bjargráð við hjartað sem bjargaði mér þegar ég lenti aftur í hjartastoppi – en það gerðist nokkrum sinnum.“

Fimm árum síðar eða árið 2010 komst Kjartan inn á biðlista sem hjartaþegi.

„Ég beið í 19 vikur eftir kallinu. Og ég fékk bara fjóra tíma til þess að koma mér frá Íslandi til Gautaborgar í Svíþjóð þegar símtalið kom. Aðgerðin heppnaðist vel og ég taldi bara niður dagana þar til að ég gæti farið út að hreyfa mig.“

„Ég beið í 19 vikur eftir kallinu. Og ég fékk bara fjóra tíma til þess að koma mér frá Íslandi til Gautaborgar í Svíþjóð þegar símtalið kom. Aðgerðin heppnaðist vel og ég taldi bara niður dagana þar til að ég gæti farið út að hreyfa mig.“

Aðgerðin fór fram í ágúst árið 2010 og um vorið 2011 fór Kjartan í Bása hjá Golfklúbbi Reykjavíkur að slá fyrstu höggin eftir stóru aðgerðina. „Það var dásamleg tilfinning að sjá boltann fljúga eftir höggin. Ég fór í golfferð til Spánar vorið 2011 og ég hef ekki litið um öxl síðan þá,“ bætir Kjartan við en hann leikur einnig badminton tvisvar til þrisvar sinnum í viku.

Kjartan byrjaði í golfi árið 2000 og golfferð til Pine Cliffs í Portúgal kveikti neistann fyrir alvöru. „Ég hafði verið mikið í badminton áður en ég fór að spila golf. Að mörgu leyti finnst mér íþróttirnar líkar. Það er notað verkfæri til að slá boltann en mér gengur betur að slá með badmintonspaðanum – enn sem komið er.“

Kjartan er með um 20 í forgjöf en hann hefur náð að komast niður í 17,2. „Markmiðið er að ná forgjöfinni niður og það tekst vonandi á næsta sumri. Mér hefur ekki gengið nógu vel að glíma við heimavöllinn minn á Flúðum. Það kemur, ég er viss um það,“ segir Kjartan en hann er með sumarhús á teikniborðinu sem hann ætlar að reisa á Flúðum.

„Ég vinn hjá Hjartaheill í hlutastarfi. Aðalvinnan mín er samt sem áður líkamsræktin. Ég er sjálfselskur þegar kemur að því að nýta kraftana. Ef ég væri að vinna meira þá hefði ég ekki orku til að hreyfa mig og njóta þess að vera á lífi.“

Heimsleikarnir eiga sér 40 ára sögu

Eins og áður segir er Kjartan að leita eftir liðsfélaga til þess að fara með á heimsleika líffæraþega. Hann hefur farið þrívegis á slíka leika og í eitt skiptið var Ísland með í liðakeppninni.

Heimsleikar líffæraþega eru skipulagðir af alþjóðlegum samtökum sem kallast Heimsleikasamband líffæraþega (World Transplant Games Federation, WTGF). Um 2.000 keppendur taka yfirleitt þátt á sumarleikunum sem fram fara annað hvert ár. Á þessu ári fara fram vetrarleikar hjá WTGF í Sviss.

Árið 1978 var í fyrsta sinn haldið íþróttamót líffæraþega í Portsmouth á Englandi og kepptu þar líffæraþegar frá Bretlandi, Frakklandi, Grikklandi og Bandaríkjunum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og eru nú um 70 þátttökulönd í Heimsleikasambandi líffæraþega.

„Árið 2010 fórum við þrjú til Durban í Suður-Afríku. Björn Magnússon tók þátt í golfkeppninni með mér og Laufey Rut Ármannsdóttir keppti í hlaupi. Hún gerði sér lítið fyrir og vann til bronsverðlauna í 5 km götuhlaupi,“ segir Kjartan en Björn og Laufey eru nýrnaþegar.

„Ég lærði mikið í ferðinni til Durban. Ferðlagið var langt og var erfitt. Ég ætlaði mér of mikið og tók þátt í hlaupum, badminton og golfi – auk þess að vera liðsstjóri sem mætti á fund á hverjum degi. Þetta tók sinn toll af golfinu og árangurinn var í samræmi við það. Orkan var búin en þetta var mjög skemmtileg og eftirminnileg ferð,“ segir Kjartan.

Kalt í Argentínu

Tveimur árum síðar lagði Kjartan í langferð með eiginkonu sinni til Argentínu á sumarleikana.

„Mótið fór fram í ágúst en þá er vorið rétt að byrja í Argentínu. Veðrið var ekki gott á meðan leikarnir fóru fram og gríðarleg úrkoma var á svæðinu dagana áður en við komum. Það var allt á floti. Golfvöllurinn var því ekki í góðu standi og ég lenti í vandræðum strax í upphafi,“ segir Kjartan en keppnisfyrirkomulagið er höggleikur með forgjöf. „Ég tók þátt í einstaklingskeppninni en ég hefði viljað hafa liðsfélaga í liðakeppninni.

Í fyrra eða árið 2017 tók Kjartan þátt á leikunum sem fram fóru í Malaga á Spáni. Hann hefur nú sett stefnuna á að taka þátt á næsta ári í Newcastle á Englandi.

Ég vona svo sannarlega að einhver sem les þetta viðtal geti aðstoða mig við að finna liðsfélaga á næstu leika.

„Það er keppt er í ýmsum greinum t.d. frjálsum íþróttum, hlaupum, badmintoni og golfi.

Ég vona svo sannarlega að einhver sem les þetta viðtal geti aðstoða mig við að finna liðsfélaga á næstu leika. Ef svo er þá er ekkert annað en að hafa samband við mig í gegnum netfangið kjartan@hjartaheill.is,“ segir Kjartan Birgisson að lokum við Golf á Íslandi.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ