/

Deildu:

Valdís Þóra Jónsdóttir og Haraldur Franklín Magnús. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins 2018. Þeir eru Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi og Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Þetta er í 21. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í annað sinn sem þau Valdís Þóra og Haraldur Franklín hljóta þessa útnefningu.

Valdís Þóra lék á sínu öðru tímabili í röð á LET Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð í Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Leyniskonan endaði í 38. sæti á stigalistanum sem er besti árangur hennar á LET. Valdís komstí gegnum niðurskurðinn á fimm mótum af alls 12 sem hún tók þátt í á LET.

Besti árangur hennar var þriðja sætið á LET-móti í Ástralíu – sem er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumóti í golfi í efsta styrkleikaflokki.

Valdís Þóra lék á þremur mótum á LET Access atvinnumótaröðinni, sem er næststerkasta atvinnumótaröð í Evrópu.

Valdís tryggði sér snemma á tímabilinu áframhaldandi keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Hún fór því á úrtökumótið fyrir LPGA-mótaröðina í Bandaríkjunum. Þar keppti hún á 2. stigi af alls þremur. Úrtökumótið fór fram á Flórdída á Plantation Golf & Country Club í Venice.

Valdís Þóra lék hringina fjóra á 298 höggum eða +10 (76-78-73-71). Hún endaði í 110. sæti en alls komust 41 áfram á lokastigið. Valdís Þóra var 10 höggum frá því að komast áfram.

Valdís Þóra var í fjögurra manna liði Íslands sem sigraði á Evrópumótinu í blandaðri liðakeppni atvinnukylfinga á meistaramóti Evrópu í Skotlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni fer fram hjá atvinnukylfingum.

Haraldur Franklín komst inn á Opna breska meistaramótið eftir að hafa endað í öðru sæti á úrtökumóti fyrir risamótið. Hann tók því fyrstur allra íslenskra karlkylfinga þátt á risamóti á atvinnumótaröð. GR-ingurinn lék á 72-78 og +8 samtals á Carnoustie vellinum í Skotlandi.
Þeir kylfingar sem léku á +3 eða betur komust í gegnum niðurskurðinn.

Haraldur Franklín komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina en hann féll naumlega úr leik á 2. stiginu. Hann er á sínu þriðja ári sem atvinnukylfingur.

Haraldur Franklín lék á 17 mótum á Nordic atvinnumótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki í Evrópu. GR-ingurinn endaði í 55. sæti á stigalistanum. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á 10 mótum og besti árangur hans var 7. sætið.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.

Kylfingar ársins frá upphafi:

1973 Björgvin Þorsteinsson GA 1
1974 Sigurður Thorarensen GK 1
1975 Ragnar Ólafsson GR 1
1976 Þorbjörn Kjærbo GS 1
1977 Björgvin Þorsteinsson GA 2
1978 Gylfi Kristinsson GS 1
1980 Hannes Eyvindsson GR 1
1981 Ragnar Ólafsson GR 2
1982 Sigurður Pétursson GR 1
1983 Gylfi Kristinsson GS 2
1984 Sigurður Pétursson GR 2
1985 Sigurður Pétursson GR 3
1986 Úlfar Jónsson GK 1
1987 Úlfar Jónsson GK 2
1988 Úlfar Jónsson GK 3
1989 Úlfar Jónsson GK 4
1990 Úlfar Jónsson GK 5
1991 Karen Sævarsdóttir GS 1
1992 Úlfar Jónsson GK 6
1993 Þorsteinn Hallgrímsson GV 1
1994 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 1
1995 Björgvin Sigurbergsson GK 1
1996 Birgir Leifur Hafþórsson GL 1
1997 Birgir Leifur Hafþórsson GL 2
1998 Björgvin Sigurbergsson GK 2 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 1
1999 Örn Ævar Hjartarson GS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 1
2000 Björgvin Sigurbergsson GK 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 2
2001 Örn Ævar Hjartarson GS 2 Herborg Arnardóttir GR 1
2002 Sigurpáll Geir Sveinsson GA 2 Ólöf María Jónsdóttir GK 2
2003 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 3 Ragnhildur Sigurðardóttir GR 3
2004 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 4 Ólöf María Jónsdóttir GK 3
2005 Heiðar Davíð Bragason GKj. 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 4
2006 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 5 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 1
2007 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 6 Nína Björk Geirsdóttir GKj. 2
2008 Hlynur Geir Hjartarson GOS 1 Ólöf María Jónsdóttir GK 5
2009 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 1
2010 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 7 Tinna Jóhannsdóttir GK 1
2011 Ólafur Björn Loftsson NK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 1
2012 Haraldur Franklín Magnús GR 1 ÓIafía Þórunn Kristinsdóttir GR 2
2013 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 8 Sunna Víðisdóttir GR 1
2014 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 9 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 3
2015 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 10 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 4
2016 Birgir Leifur Hafþórsson GKG 11 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 5
2017 Axel Bóasson GK 1 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR 6
2018 Haraldur Franklín Magnús GR 2 Valdís Þóra Jónsdóttir GL 2

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ