/

Deildu:

Auglýsing

Bláa Lónið og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafa endurnýjað samstarfssamning sinn til tveggja ára og verður Bláa Lónið því áfram einn af aðalstyrktaraðilum atvinnukylfingsins sterka. Ólafía og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, undirrituðu samninginn fyrir skemmstu en markmiðið með honum er líkt og áður að veita Ólafíu stuðning til keppni og æfinga.

„Við höfum átt frábært ár saman og áframhaldandi stuðningur frá Bláa Lóninu er mér mikilvægur. Eftir gott síðasta ár, dansandi á línunni rétt vitlausu megin, í íþrótt þar sem hársbreidd getur munað til að ná árangri, er gott að finna þennan stuðning. Það getur verið svo stutt í toppinn og því verður maður að halda áfram að vinna hörðum höndum og sjá hversu langt maður kemst,“ sagði Ólafía við undirritunina.

Grímur Sæmundsen fagnar einnig áframhaldandi samstarfi enda hafi það verið einkar ánægjulegt. „Ólafía sýnir mikla vinnusemi og hefur einstakan metnað og trú á því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er þeim eiginleikum gædd að draga fram það besta í fólki og hefur meðal annars veitt okkur innblástur með fyrirlestrum sínum og jákvæðni innan vallar sem utan. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“

Ljóst er að Ólafía mun hafa í nógu að snúast á næstunni en keppnistímabilið er þegar hafið. „Ég fór til Flórída í byrjun mars til að undirbúa mig fyrir fyrsta mótið mitt og þar með byrjaði ballið. Þetta ár verður skemmtilegt og mikið af nýjum áskorunum sem ég mun vonandi læra mikið af og ná settum markmiðum,“ segir Ólafía Þórunn.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ