Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði að komast í gegnum úrtökumót fyrir Opna bandaríska meistaramótið sem er eitt af fimm risamótum ársins hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.
Úrtökumótið fór fram á Walnut Creek-vellinum í Kaliforníu. Ólafía Þórunn gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu á -5 samtals, (69-70).
Aðeins eitt öruggt sæti var í boði á risamótið á þessum velli og tryggði Ólafía sér sætið með glæsilegum árangri.
Þetta er annað árið í röð sem Ólafía Þórunn vinnur sér keppnisrétt á opna bandaríska meistaramótinu.
Ólafía komst ekki í gegnum niðurskurðinn í fyrra en hún lék hringina tvo á fimm höggum yfir pari.
US Open fer fram 30. maí til 3. júní í Charliston í Suður-Karólínu.