Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar tekur þátt á Evrópumóti golfklúbba í karlaflokki sem fram fer í Frakklandi 23.-25. október. Keppnin átti að hefjast í dag en vegna úrkomu hafa mótshaldarar ákveðið að fella niður fyrstu umferðina.
GKG tryggði sér keppnisrétt á mótinu með því að sigra á Íslandsmóti golfklúbba sem fram fór á Leirdalsvelli og Urriðavelli s.l. sumar.
Keppt er á Golf du Medoc keppnisvellinum sem er ekki langt frá borginni Bordeux.
Bræðurnir Sigurður Arnar Garðarsson og Ragnar Már Garðarsson keppa fyrir GKG ásamt Aroni Snæ Júlíussyni.
Þetta er í annað sinn sem þeir félagar keppa fyrir GKG á þessum velli á EM golfklúbba en mótið fór fram á þessum velli fyrir tveimur árum.
Alls eru 25 klúbbar sem taka þátt á EM golfklúbba.