Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mun ekki leika á Symetra-atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum fyrr en í fyrsta lagi í maí.
Forsvarsmenn LPGA og Symetra tóku þá ákvörðun að fresta öllum mótum á þessum tveimur mótaröðum næstu vikurnar vegna Covid-19 veirunnar.
Ólafía Þórunn mun dvelja á Íslandi næstu vikurnar við æfingar.
Í færslu á fésbókarsíðu sinni skrifar Ólafía að hún hafi ákveðið að koma til Íslands um leið og ferðabanni frá Evrópu var lýst yfir í Bandaríkjunum.
„Það er ekki auðvelt að taka ákvarðanir í óvissuástandi sem nú ríkir. Ég ákvað að koma til Íslands um leið og ferðbanninu var lýst yfir. Ég ætla að æfa vel á Íslandi og undirbúa mig eins vel og hægt er, og vera klár ef breytingar verða gerðar á keppnisdagskrá Symetra á ný.“