Það styttist í golftímabilið hér á Íslandi og margir eru nú þegar byrjaðir að nýta sér golfvelli á SV-horni landsins.
Hér eru 12 ráð sem gott er að hafa í huga í upphafi tímabilsins.
Hér eru almennar ráðleggingar sem miðast við golfleik þegar hann getur hafist við hefðbundnar kringumstæður. Eftir samkomubann og þegar íþróttaæfingar verða leyfðar á ný vegna Covid-19 faraldursins.
- Æfðu stutta spilið
Tilfinningin fyrir stutta spilinu í kringum flatirnar og á flötunum er oft „ryðguð” eftir vetrardvalann. Þetta á einnig við um þá sem hafa æft vel fyrir vetrartímann – því það er mikill munur á því að leika á náttúrulegu grasi og gervigrasi. - Góður fatnaður
Það styttist í sumarið en íslenska vorveðrið getur oft bitið í og verið blautt og kalt. Það er betra að klæða af sér kuldann með því að vera í mörgum þunnum flíkum í stað þess að klæðast þykkum fatnaði sem hindrar hreyfingarnar í golfsveiflunni. - Leitaðu til PGA kennara (þegar það verður leyft á ný vegna Covid-19)
Það er auðvelt að festast í fari sem erfitt er að komast upp úr. Fáðu PGA kennara til að fara yfir helstu grunnatriðin. Gripið, stöðuna, líkamsstöðu, boltastöðu, jafnvægi og miðið. Æfingarnar verða mun markvissari og skemmtilegri í kjölfarið. Þetta á jafnt við um þá sem eru með lága eða háa forgjöf. - Mæling hjá fagmanni (þegar það verður leyft á ný vegna Covid-19 )
Það getur borgað sig að fá fagmann til að mæla þann útbúnað sem þú ert með í notkun nú þegar – áður en fjárfest er í nýjum útbúnaði. Kylfurnar eiga að henta þeim líkamlegum eiginleikum sem þú býrð yfir, sveifluhraða, líkamsstyrk og öðrum þáttum sem skipta máli þegar kemur að vali á réttum útbúnaði. - Góð tilboð
Það eru alltaf góð tilboð í gangi hjá golfverslunum landsins og þá sérstaklega þegar nýjar kylfur eru kynntar til leiks. Það borgar sig að fylgjast vel með og landa hagstæðum tilboðum. - Skynsemi
Það þarf ekki alltaf að endurnýja allt settið. Fleygjárnin þarfnast endurnýjunar oftar en aðrar kylfur – og mikilvægt að þær séu ekki með slitnum höggfleti. Einnig er vert að skoða hvort það vanti kylfur til þess að fylla upp í göt í högglengdinni. Það getur oft breytt miklu að bæta einni kylfu í safnið. - Fjölbreytt leikform
Það getur oft breytt miklu að prófa nýtt leikform til þess að ná fram leikgleðinni og „hungrinu” í golfíþróttinni. Fjórbolti, Texas Scramble og holukeppni eru allt góðar leiðir til þess að brjóta upp hið hefðbundna mynstur í punktakeppni eða höggleik. - golf.is
Það er nauðsynlegt að fara yfir upplýsingarnar sem skráðar eru um þig á golf.is. Er forgjöfin rétt, heimilisfang, klúbbur?. Það er ekki góð upplifun að fara með ranga forgjöf eða vera skráður í rangan klúbb í fyrsta golfmóti ársins. - Hlustaðu á líkamann
Það eru margir vöðvar sem við notum í golfsveiflunni sem liggja í dvala yfir veturinn. Það er mikilvægt að meiðast ekki í upphafi tímabilsins og því nauðsynlegt að gera æfingar sem nýtast í golfsveiflunni. Samhæfing, jafnvægi og styrkur koma þar við sögu – leitaðu til fagaðila sem gefur þér góð ráð á þessu sviði. - Þolinmæði
Það er nauðsynlegt að sætta sig við að getustigið er oft ekki í hámarki á vorin þegar fyrstu golfhringirnir eru leiknir. Njóttu þess að vera úti að slá á grasi, sjá boltann fljúga, og andaðu að þér ferska loftinu. Vallaraðstæður eiga einnig eftir að batna og það er því um að gera að njóta og sýna þolinmæði. - Níu holur er valkostur
Það er ekki alltaf nauðsynlegt að leika 18 holur. Margir golfklúbbar bjóða upp á 9 holu hringi – það tekur styttri tíma og er prýðisæfing. Það er góð lausn að leika golf í rúmlega 1 ½ klukkustund. - Settu þér markmið
Það er nauðsynlegt að setja sér markmið til þess að bæta árangurinn í golfinu. Skráðu tölfræðina, hittar brautir, hittar flatir, fjölda pútta. Þar með færðu betri yfirsýn um veikleika og styrkleika í leik þínum. Það leiðir af sér að auðveldara er að setja upp markvissa æfingaáætlun til þess að ná enn lengra.