Golfvellir á Norðurlandi koma nokkuð vel undan erfiðum og löngum vetri. Nýverið opnaði Jaðarsvöllur á Akureyri fyrir almenna umferð og hefur aðsóknin verið gríðarlega mikil að sögn Steindórs Ragnarssonar framkvæmdastjóra Golfklúbbs Akureyrar.
„Þessi vetur hefur verið erfiður og langur. Snjóþungur og fer eflaust í einhverjar metabækur hvað það varðar. Við hér á Jaðarsvelli höfum unnið hart að því að koma vellinum í eins gott ástand og hægt er. Það er ekkert leyndarmál að staðan á vellinum er mun betri en veturinn gaf til kynna. Vorið hefur líka verið afar kalt og oft næturfrost Það er ljóst að sú vinna sem á sér stað yfir vetrarmánuðina á flötunum er að skila sér. Engir dauðir blettir eru á flötunum. Það eru eitthvað af teigum og brautarpörtum sem eru seinni til. Það er ekkert sem mun hafa áhrif þegar við förum inn í sumarið,“ segir Steindór.
Dagana 19.–21. júní verður eitt af stærstu mótum ársins haldið á Jaðarsvelli þegar Íslandsmótið í holukeppni fer þar fram. Steindór segir að Jaðarsvöllur verði klár að taka á móti bestu kylfingum landsins. Íslandsmótið í holukeppni fór síðast fram á Jaðarsvelli fyrir fimm árum eða 2015 þegar Axel Bóasson og Heiða Guðnadóttir stóðu uppi sem Íslandsmeistarar.
„Flatirnar verða í flottu standi hjá okkur í sumar. Ég býst fastlega við að þetta golfsumar verði án efa eitt af þeim allra stærstu í golfíþróttinni hér á Íslandi. Það eru allir að spila golf og við finnum svo sannarlega fyrir þessum áhuga. Það er mikil eftirvænting hjá okkar félagsmönnum fyrir tímabilinu. Mikið af fólki að spila nú þegar og töluverð fjölgun hjá okkur í klúbbnum. Mikið af nýjum andlitum sem er gleðilegt. Við hér hjá Golfklúbbi Akureyrar bjóðum alla kylfinga velkomna á glæsilegan Jaðarsvöll í sumar,“ sagði Steindór enn fremur.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru um s.l. helgi á Jaðarsvelli.
Myndir:brynjar@golf.is