Verkefnið Stelpur í golf er hluti af samstarfi KPMG, GSÍ og Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur en atvinnukylfingurinn hefur mikinn áhuga á því að efla þátttöku stúlkna og kvenna í golfi.
Ólafía Þórunn segir að það sé mikilvægt að hlúa vel að stelpum í golfíþróttinni og styðja við bakið á þeim með öllum tiltækum ráðum.
„Eitt af markmiðum mínum í samstarfi við KPMG er að efla þátttöku hjá börnum og unglingum í golfíþróttinni. Í lok júní settum við upp golfdag á Setbergsvelli sem bar nafnið Stelpur í golf og að mínu mati tókst þessi dagur mjög vel í alla staði,“ segir Ólafía Þórunn.
„Ég vona að svona upplifun sem þær fengu á Setbergsvelli hvetji þær áfram og verði til þess að þær verði sem allra lengst í golfinu. Það er oft stutt á milli að þær hætti eða haldi áfram á þessum aldri,“ segir Ólafía en að hennar mati tókst Stelpur í golf dagurinn gríðarlega vel.
„Við settum upp 9 holu Texas Scramble mót þar sem að einn atvinnu – eða afrekskylfingur var í hverju liði ásamt þremur stelpum. Það tóku allir mjög vel í að aðstoða okkur og það er mikilvægt að gera fyrirmyndir ungra stúlkna sýnilegri með átakinu Stelpur í golf.“
Ólafía Þórunn segir ennfremur að hún muni vel sjálf eftir því hversu mikilvægt það var fyrir hana á yngri árum að fá tækifæri til að spila með þeim bestu.
Ég man það sjálf þegar ég var yngri hvað mér fannst það spennandi að fá tækifæri að spila með þeim allra bestu. Ég fékk að spila með Ragnhildi Sigurðardóttur og Ólöfu Maríu Jónsdóttur, sem voru Íslandsmeistarar á þeim tíma. Mér fannst slíkar stundir gefa mér mikið.
Þetta verkefni snýst líka um það að búa til upplifun sem gleymist seint. Það voru allir mjög ánægð með daginn og það myndaðist flott stemning hjá liðunum. Við borðuðum hádegismat saman og síðan tók við verðlaunaafhending. Vinningshafar mótsins fengu m.a. þau verðlaun að mæta á námskeið sem ég mun sjá um í samstarfi við KPMG. Það námskeið fer fram 11. ágúst og það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur öllum fyrir þeim degi.“
KPMG endurnýjar samstarfssamninga við GSÍ og Ólaflíu
KPMG endurnýjaði nýverið samstarfssamninga sína við Ólafíu Þórunni og GSÍ. Ólafía Þórunn hefur verið merkisberi KPMG síðastliðin þrjú ár. KPMG hefur ávallt stutt golfíþróttina nokkuð myndarlega. Í dag eru alls sjö atvinnukylfingar á samningum hjá KPMG og eru þeirra frægust, Stacy Lewis og Phil Mickelson.
Samningurinn við GSÍ er til þriggja ára. KPMG ehf. hefur um árabil stutt vel við golfíþróttina með samstarfi við GSÍ en einnig með beinum stuðningi við fjölmarga golfklúbba nærri skrifstofum KPMG um land allt. Hjá KPMG á Íslandi starfa nú um 280 manns og þar af er eru 60 starfsmenn í Golfklúbbi KPMG.