Valdís Þóra Jónsdóttir er nýr íþróttastjóri hjá Golfklúbbnum Leyni.
Atvinnukylfingurinn tekur við starfinu í byrjun nóvember en hún hefur stýrt gangi mála í barna – og unglingastarfi Leynis frá því um mitt sumar.
Birgir Leifur Hafþórsson var áður í þessu starfi en hann sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári.
Valdís Þóra hefur verið í fremstu röð atvinnukylfinga á undanförnum árum en hún er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumannamótaröð Evrópu í kvennaflokki. Hún ætlar að halda áfram í atvinnumennsku samhliða starfinu hjá Leyni.
Valdís Þóra er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, 2009, 2012 og 2017. Hún varð einnig Evrópumeistari í liðakeppni árið 2018 .
Valdís Þóra hefur oftast allra verið efst í kjörinu á Íþróttamanni Akraness eða alls sjö sinnum.
Í tilkynningu frá Leyni kemur fram að Valdís Þóra muni sjá um þjálfun barna- , unglinga- og afreksstarfs félagsins ásamt því að sinna almennum félagsmönnum GL.
„Nýr íþróttastjóri hefur skýra framtíðarsýn á starfið og er tilbúin að gera gott starf enn betra með það að markmiði að koma iðkendum sínum í fremstu röð. Það var því mikill gleðidagur í dag þegar Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri GL, og Valdís Þóra undirrituðu samning þeirra á milli. Vertu hjartanlega velkomin til starfa Valdís Þóra,“ segir í tilkynningu frá Golfklúbbnum Leyni.
Ég hlakka til að miðla minni reynslu til iðkendanna hér á Akranesi og aðstoða krakkana í að ná sínum markmiðum næsta sumar. Starfinu mun ég sinna samhliða atvinnumennsku minni og stefni ótrauð á Ólympíuleikana í Tókýó 2021,“ segir Valdís Þóra m.a. í færslu á fésbókarsíðu sinni. Þar kemur einnig fram að hún geti byrjað að æfa á ný í nóvember. Valdís Þóra hefur á undanförnum mánuðum verið í endurhæfingu vegna bakmeiðsla sem hún hefur glímt við undanfarin misseri.
„Ég má byrja að sveifla eftir helgi og það verður spennandi að sjá hvernig bakið kemur undan hvíldinni og endurhæfingunni sem hefur átt sér stað síðustu mánuði.“