/

Deildu:

Auglýsing

„Starfsemin gekk vel í sumar og veðrið var í meginatriðum gott. Klúbbfélagar og aðrir gestir nutu þess að geta spilað golf á Selsvelli þegar ýmislegt annað var ekki í boði,“ segir Árni Tómasson formaður Golfklúbbs Flúða.

Að sögn Árna hefur Selsvöllur sjaldan verið í betra ásigkomulagi en sumarið 2020.

„Selsvöllur tekur breytingum til batnaðar á hverju ári og höfðu margir, sem komu í fyrsta sinn í nokkurn tíma að spila, á orði að algjör umskipti hefðu orðið til hins betra.“

Félögum í GF fjölgaði um 10% og 30% aukning var í fjölda spilaðra hringja á Selsvelli.

„Það voru yfir 11.000 hringir leiknir á Selsvelli. Aldrei hafa jafn margir tekið þátt í mótum eða unglingastarfi og í ár. Þá var einnig metsala í veitingum í Kaffi Sel og aðstaðan bætt. Við þökkum við öllum sem þátt tóku í starfinu eða heimsóttu okkur á árinu,“ segir Árni.

Árið 1984 hófust fyrstu framkvæmdir við sex holu golfvöll við Litlu-Laxá sem varð síðar grunnurinn að Selsvelli. Golfklúbbur Flúða var stofnaður ári síðar. Mikil sjálfboðavinna átti sér stað á upphafsárum GF og vinnudagar voru oft fleiri en golfdagar hjá félagsmönnum á fyrstu árum GF. Tré og gróður eru eitt helsta einkenni vallarins – og fáir golfvellir á Íslandi skarta eins mörgum trjám og Selsvöllur.

Selsvöllur var 9 holu golfvöllur allt fram til ársins 2001 þegar hann var vígður með formlegum hætti sem 18 holu völlur. Á sama tíma var nýr golfskáli vígður en sú bygging var áður gamla fjósið á bænum Efra-Seli. Veitingastaðurinn Kaffi-Sel og golfskálinn eru í sömu byggingu. Þar er hægt að taka á móti fjölda gesta í rúmgóðum veitingasal.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ