Heimildarmyndin MULLIGAN hefur á undanförnum misserum vakið mikla athygli og er myndin nú aðgengileg á netinu. Í myndinni er kastljósinu beint að sex fötluðum einstaklingum sem eiga það allir sameiginlegt að elska golfíþróttina.
Myndin hefur verið sýnd í sjónvarpi í 14 mismunandi löndum á sjónvarpsstöðvum sem eru með samanlagt um138 milljón áhorfendur.
MULLIGAN er 44 mínútur að lengd, var frumsýnd á stærstu íþróttastöðvum heims sem fjalla um golf, og má þar nefna Sky Sports og The Golf Channel í Bandaríkjunum og Kanada.
MULLIGAN er tímalaus mynd þar sem að sögur er sagðar af sex kylfingum sem láta ekkert stöðva sig til þess að iðka og leika golf. Kylfingarnir heita Adem, Juan, Marcus, Mike, Monique og Stewart. Í myndinni fá áhorfendur að skyggnast inn í daglegt líf þeirra og sögur þeirra allra eiga það sameignlegt að golfíþróttin hefur breytt miklu í lífi þeirra.
Evrópusamtök fatlaðra kylfinga, EDGA, stóðu að gerð myndarinnar og er framhaldsmynd nú þegar í vinnslu sem mun heita MULLIGAN 2.