Auglýsing

Fulltrúar Golfklúbbs Selfoss og Sveitarfélagsins Árborgar undirrituðu, sunnudaginn 24. janúar, viljayfirlýsingu um framkvæmd á 18 holu golfvelli við Selfoss.

Viljayfirlýsingin var undirrituð á afmælisdegi klúbbsins en hann var stofnaður á þessum degi fyrir 50 árum, árið 1971.

Níu holu golfvöllur hefur verið á bökkum Ölfusár norðan við Selfoss um áratuga skeið.

Þjóðvegurinn við Selfoss fær senn nýtt vegstæði og ný brú yfir Ölfusá mun rísa á næstu árum. Þetta þýðir að Golfklúbbur Selfoss hefur látið syðsta hluta vallarins undir þá framkvæmd. Til að koma á móts við þessar breytingar hafa staðið yfir framkvæmdir á þremur nýju golfbrautum sem hafa fengið nýjan stað norðar í landi klúbbsins.

Framkvæmdirnar hófust haustið 2018 og er stefnt að því að opna þær í sumar. Meðfram framkvæmdunum hefur stækkun vallarins verið skipulög og þykir mikilvægt að framkvæmdirnar fái framhald í stækkun upp í fulla stærð eða 18 holur. Slíkt hefur mikla hagræðingu í för með sér, bæði fjárhagslega og faglega.

Aðsókn að klúbbnum, bæði gesta og félagsmanna, hefur stóraukist síðustu ár og er svo komið að þörf er á stækkun vallarins til að anna eftirspurn. Forsvarsfólk Golfklúbbsins fær reglulega fyrirspurnir um golfvöllinn frá fólki sem kannar búsetukosti í sveitafélaginu og hvort hann sé í fullri stærð. Mörgum finnst skjóta skökku við að stærsta sveitarfélag Suðurlands bjóði ekki upp slíka stærð golfvallar.Einnig hefur hin öra fólksfjölgun sem á sér stað í Sveitarfélaginu Árborg kallað á frekari útiveru- og afþreyingarkosti en þá sem nú er til staðar.

Golfklúbbur Selfoss og Sveitarfélagið Árborg deila sýn á hlutdeild klúbbsins í lýðheilsumarkmiðum sveitarfélagsins. Svæði vallarins hefur því verið skipulagt með göngustíga, reiðstíga og útiveru almennings í huga sem og verður það öllum aðgengilegt.

Viljayfirlýsingin sem var undirrituð í dag felur í sér að farið verður í að gera samning um aðkomu sveitarfélagsins og stuðning við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þannig mun 18 holu golfvöllur rísa á bökkum Ölfusár við Selfoss á næstu árum.

Þess má geta að Bárður Guðmundarsons, fyrrum formaður klúbbsins, er þessa dagana að leggja lokahönd á ritun sögu Golfklúbbs Selfoss og mun hún verða birt á heimasíðu klúbbsins.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ