Töluverðar breytingar eru fyrirhugaðar á húsnæði Golfklúbbs Vestmannaeyja á næstu misserum. Stjórn GV samþykkti nýverið á fundi sínum að hefja vinnu við viðbyggingu á húsnæði klúbbsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfklúbbi Vestmannaeyja en Íslandsmótið í golfi fer fram í Vestmannaeyjum eftir tæplega tvö ár eða í ágúst 2022.
Byggt verður við neðri hæðina á núverandi klúbbhýsi og er hugmyndin að golfhermar GV verði staðsettir þar ásamt geymslu fyrir golfbíla GV. Svæði fyrir skápa verður óbreytt en hugsanlega verður það svæði endurskipulagt.
Búningsherbergi fyrir konur og karla á efri hæð verða útbúinn auk þess sem stefnt er að því að fjölga salernum.
Stefnt er að því að hefja jarðvinnu í byrjun febrúar en framkvæmdinni verður skipt upp í áfanga. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki tvö ár og að kostnaðurinn verði á bilinu 40-50 milljónir kr.